Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

matvæli og eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

475. mál
[21:26]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Evrópusambandið sem slíkt er auðvitað í þróun og hefur tekið miklum breytingum, ríkjum þar fjölgað og stóra breytingin var kannski þegar Austur-Evrópuríkin fengu aðild að Evrópusambandinu. Innan sambandsins er auðvitað þessi togstreita á milli þróunarinnar til sambandsríkis, federalisma, sem Frakkar og Þjóðverjar hafa löngum talað fyrir, og svo hinna ríkjanna sem eru Norðurlöndin, Eystrasaltslöndin, að því ég best veit, og önnur ríki líka, sem vilja hafa sterkt samstarf en ekki að renna saman og verða bandaríki Evrópu. Í þeirri deiglu er umræðan oft mjög fróðleg og skemmtileg og mín pólitíska skoðun er sú að það eigi ekki að verða til bandaríki Evrópu, það sé ekki til heilla fyrir Evrópusambandið eða aðildarríki þess. Og af því að þingmaðurinn nefndi stöðu smáríkja þá er það einu sinni þannig að staða smáríkja innan Evrópusambandsins er býsna góð. Auðvitað hafa stærri ríki meiri mannafla og þyngra spor, ef þannig má að orði komast, en minni ríkin innan Evrópusambandsins sitja við borðið, þau velja auðvitað verkefni sín betur og kannski af meiri kostgæfni en stóru ríkin gera en þau eru líka í forsvari fyrir Evrópusambandið, eins og t.d. má sjá núna, mig minnir að Malta sé í forsvari. Þau hafa þar sama vægi og stóru ríkin þegar kemur að því að útkljá mál, t.d. í ráðherraráði og annars staðar, og mér finnst það skipta máli.