153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

dagskrártillaga.

[15:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hér erum við að fjalla um mál sem ansi margir umsagnaraðilar sem við höfum alla jafna tekið mikið mark á hafa gert alvarlegar athugasemdir við, um efni frumvarpsins með tilliti til stjórnarskrár og mannréttinda sem kvittað hefur verið upp á á margvíslegum alþjóðavettvangi og að sjálfsögðu líka hér innan lands. Hluti stjórnarliða hefur boðað það að hann vilji skoða breytingartillögur milli 2. og 3. umr. en það er ótækt að hleypa máli og efnisatriðum máls sem eru mögulega með stjórnarskrárbrotum í atkvæðagreiðslu í 2. umr. Stjórnarliðar eiga að hafa þann snefil af virðingu að sýna okkur þær breytingartillögur sem þeir vilja gera á þessu frumvarpi til þess að hægt sé að eiga efnislegar umræður um þær breytingartillögur í 2. umr. Ef málið er hvort eð er að fara til nefndar á milli 2. og 3. umr. þá er alveg eins hægt að setja það í nefnd núna á meðan á 2. umr. stendur til þess að ekki sé hægt að hafa af okkur þessa efnislegu umræðu sem á almennt að gerast í 2. umr.