153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

frumvarp um útlendinga.

[15:21]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Nú er það svo að við vitum það öll að öll ríki Evrópu eru að fást við þessi mál og raunar myndi ég nú ekki telja að Ísland gengi harðast fram í þessum málum ef við berum saman löggjöf ólíkra ríkja. Þetta er því ekki einhver einsleitur heimur þegar að þessu kemur. Evrópuríki hafa ákveðið að koma sér saman um tiltekið kerfi og síðan útfæra ríkin það í raun og veru hvert með sínum hætti. Ég vil ítreka að þar gengu Íslendingar í raun og veru skemur en mjög mörg nágrannaríki okkar. Það hefur verið viljinn á Alþingi að við séum með tiltölulega frjálslynda löggjöf og það er í anda þess sem mér finnst sjálfri en um leið er líka mikilvægt að við tökum tillit til þeirra sjónarmiða sem hafa birst hvað varðar framkvæmd laganna.

Annað mál sem mér finnst kannski ekki nægjanlega rætt er hvernig við síðan fylgjum þessari móttöku eftir því að við getum auðvitað ekki rætt útlendingamálin (Forseti hringir.) eingöngu út frá þeim lögum og reglum sem við setjum um hverjum við tökum á móti, við þurfum líka að ræða það hér í þessum sal hvernig við tökum á móti þeim. (Gripið fram í: Við erum að reyna það.) Og það skiptir verulegu máli að ræða þau mál.