153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

hækkun verðbólgu.

[15:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er rétt að þegar við samþykktum hér fjárlög og tekjubandorm þá hækkuðum við krónutölugjöldin sem lögð eru á áfengi, tóbak, bifreiðar og olíu í tengslum við það, enda hefðu þau annars rýrnað langt umfram það sem eðlilegt gæti talist. Um þetta var rætt hér við afgreiðslu fjárlaga og tekjubandorms og mátti öllum í sjálfu sér vera ljóst. Það að einfalda heimsmyndina þannig að þá verðbólgu sem hér geisar og annars staðar megi eingöngu rekja til krónutöluhækkana ríkisstjórnarinnar er auðvitað einföldun sem stenst enga skoðun og ekki síst þegar bent er á að ríkisstjórnin hefur síðan gripið til ýmissa mótvægisaðgerða, bæði hefur tekjuskattur á hina tekjulægstu lækkað sem og verið gripið til sérstakra mótvægisaðgerða til að verja tekjulægstu hópana fyrir áhrifum verðbólgunnar.

Hv. þingmaður nefnir það hins vegar hér að það sé rétt að ríkisstjórnin ræði við Seðlabankann. Þá vil ég bara segja það að Seðlabankinn er auðvitað að lögum sjálfstæð stofnun. Það er ekki svo að ríkisstjórn, hvorki forsætisráðherra né aðrir ráðherrar, hafi afskipti af vaxtaákvörðunum Seðlabankans. Þar er það einfaldlega peningamálanefndin sem tekur ákvörðun og kynnir hana út frá stöðunni.

Það sem ég vil hins vegar segja almennt um þessi mál er að hér hafa náðst kjarasamningar við mikinn meiri hluta launafólks á almennum vinnumarkaði og hér hafa verið samþykkt fjárlög sem ég tel að endurspegli vilja til þess að opinber fjármál spili saman við peningastefnu og vinnumarkað. Að sjálfsögðu vonumst við til þess að við séum komin á þann stað, ekki síst í ljósi þeirra spádóma sem liggja fyrir um að verðbólga fari nú að hjaðna, að við séum komin að einhverjum endimörkum en ég tek það fram að það eru bara mínar vonir. Seðlabankinn (Forseti hringir.) er algerlega sjálfstæður í sínum störfum og ég mun ekki hafa nein afskipti af því hvernig (Forseti hringir.) hann kemst að sinni niðurstöðu í þessum málum.