Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:04]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla bara að byrja þar sem ég lét staðar numið í fyrri ræðu. Þar var ég að tala um 2. og 6. gr. frumvarpsins og umsögn Amnesty International hvað varðar þau tvö ákvæði. Amnesty International er ekki eini umsagnaraðilinn sem gerir athugasemd við þessi tvö ákvæði heldur hefur Kvenréttindafélag Íslands líka nefnt 2. gr. Síðan hefur Mannréttindastofnun Háskóla Íslands sérstaklega gert athugasemd við 2. gr. frumvarpsins. Umsögn Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar kemur líka inn á 2. og 6. gr. frumvarpsins.

Ég hef ekki tíma til að fara yfir þetta allt, ég kem bara inn á það í næstu ræðu. En það að það séu svona margir umsagnaraðilar búnir að gera athugasemd sérstaklega við þessi tvö ákvæði í frumvarpinu segir svolítið mikið um innihald þessara lagaákvæða. Því velti ég fyrir mér t.d. varðandi 6. gr., heimild til að skerða eða fella niður grunnþjónustu, hvernig þessum heimildum verður beitt. Er þetta í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga? Er verið að gæta meðalhófs við beitingu þessara heimilda? Ég held ekki. Ég held í alvörunni ekki. Þetta er rosalega íþyngjandi aðgerð sem er sett á fót til þess eins að hrekja fólk úr landi. Það mun náttúrlega leiða til meira álags á kerfinu sem er bara afleiðing þess að það er verið að lögfesta eitthvert svona drasl án þess að taka til greina áhyggjur sem hér hefur verið komið á framfæri. Því spyr ég líka: Er þetta í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýslulaga, að ákvarðanir séu teknar á málefnalegum grundvelli? Mér finnst þetta ekki málefnalegur grundvöllur. Hver er grundvöllurinn hjá t.d. Útlendingastofnun að svipta umsækjendur um alþjóðlega vernd allri grunnþjónustu? Jú, þau neita að fara úr landi og því viljum við hrekja þau burt með því að taka allt sem þau eiga og vera í andstöðu við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. — Nei, virðulegi forseti, ég myndi ekki segja að þetta séu málefnalegar forsendur fyrir ákvarðanatöku.

Það er greinilega mjög ljóst að þetta frumvarp er vanhugsað, enda er það svo að 6. gr. er bara rosalega íþyngjandi og, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, það er bara verið að lögfesta einhverja ólögmæta framkvæmd sem kærunefnd útlendingamála hefur úrskurðað nú þegar að sé ólögmæt og úrskurðum kærunefndarinnar er ekki unnt að skjóta til æðra stjórnvalds. Þannig að þetta er bara úrskurður á lokastigi og ekki hægt að komast fram hjá þessu. Þetta er fordæmisgefandi að einhverju leyti. — Jú, auðvitað, við lögfestum það þá bara, setjum þetta bara í lög, gerum það bara auðvelt að þetta megi, að þetta megi bara víst. Ásetningurinn á bak við setningu þessa lagaákvæðis, þá sérstaklega 6. gr. frumvarpsins, er bara mannvonska. Þetta er til að hrekja burt flóttafólk og ekkert annað. Þetta er ekki gert til að auka skilvirkni í kerfinu. Þetta er ekki gert til að beita vægari aðgerðum gagnvart fólki sem neitar að yfirgefa landið. Nei, þvert á móti; þetta er bara gert til að vera vond við fólk í viðkvæmri stöðu og mögulega brjóta á grundvallarákvæðum um jafnræði og meðalhóf, af því að ég get lofað því, virðulegi forseti, að það er ekki verið að gæta meðalhófs við beitingu þessara laga ef þetta frumvarp skyldi verða að lögum.

Í 2. gr. frumvarpsins er þetta um að synjun muni sæta sjálfkrafa kæru. Ég hef komið inn á þetta nokkuð vel og ítarlega. Það er verið að setja á fót nýja reglu um málsmeðferð, sem sagt ef efnislegri meðferð er synjað þá mun það sjálfkrafa sæta kæru til kærunefndar útlendingamála og þá þarf umsækjandinn að skila inn greinargerð innan 14 daga frá birtingu ákvörðunarinnar. Það er bara mjög skammur tími fyrir umsækjanda um alþjóðlega vernd til að redda sér lögfræðingi, redda sér gögnum, redda sér skriflegri greinargerð og koma öllum sínum óskum og rökum á framfæri. Segjum að þetta muni taka kannski bara fimm daga, ef við tökum frá tímann sem það tekur til þess að fá gögn afhent frá Útlendingastofnun. — Virðulegi forseti. Ég hef ekki lokið máli mínu og óska þess að vera sett aftur á mælendaskrá.