135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

1. fsp.

[10:38]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég nefndi áðan að mikil vinna hefur farið fram, bæði á vettvangi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og einnig meðal hagsmunaaðila, við að kynna stöðu íslensks sjávarútvegs. Við höfum m.a. verið að velta því fyrir okkur hvort ástæða væri til að taka upp sérstakt íslenskt upprunamerki til að undirstrika stöðu íslenskra fiskstofna og það að við erum að veiða með ábyrgum hætti. Þetta er mál sem hefur tekið lengri tíma en við hugðum en er hins vegar að mínu mati brýnt að við reynum að komast sem fyrst að skynsamlegri niðurstöðu.

Ég vil vekja athygli á því að í sumar undirrituðum við, þ.e. ég og fulltrúar vísindastofnana okkar og fiskiðnaðarins, fulltrúar sjávarútvegsins, yfirlýsingu um ábyrgar veiðar sem ég veit að margir íslenskir útflytjendur hafa verið að nota til að vekja athygli á því sem við erum að gera í auðlindanýtingu okkar. Sem betur fer nýtur íslenskur sjávarútvegur mikils velvilja og mikils álits á hinum alþjóðlegu mörkuðum og það eigum við að undirstrika og það eigum við að árétta hvar sem við komum því við.