135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

tekjuskattur.

54. mál
[12:22]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður þurfi ekki að spyrja mig að þessu. Ég held að hann hafi heyrt mig svara því á einhverjum fundum í kosningabaráttunni sl. vor. Ég tel það ekki vera gott ráð við hverju svo sem ráðið ætti að vera vegna þess að þá erum við farin að koma með einhvers konar afsökun fyrir því að þjónustustigið úti á landsbyggðinni sé lægra. Við værum þá í raun að gefa fólki afslátt vegna slakrar þjónustu. Við eigum auðvitað að stefna að því að bæta þjónustuna og að hún sé, eftir því sem kostur er, jafngóð alls staðar á landinu.

Síðan er það hitt að sú þjónusta sem hið opinbera veitir í öllum meginatriðum er veitt eftir þörfum. Þótt notendagjöld séu upp að vissu marki þá er það upp að mjög lágu marki. Við færum þá út í það að fólk greiddi skatta eftir því hversu mikið það notar velferðarkerfið. Þá held ég að við séum komin frá meginhugmyndinni um velferðarkerfið og þá þjónustu sem hið opinbera veitir.

Þá komum við að þriðja atriðinu sem hv. þm. Pétur Blöndal kallaði fram í, að það býður auðvitað upp á að kerfið sé misnotað, að fólk skrái sig á stöðum þar sem það greiðir minni skatta en býr svo á þeim svæðum þar sem það á að greiða hærri skatta. Ég held því að þetta sé ekki góð hugmynd, ég held að við eigum að reyna að bæta þjónustuna.