135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

tekjuskattur.

54. mál
[14:19]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var ekki aðallega að tala um kostnað við eftirlit o.s.frv. sem er oft afskaplega óþægilegt fyrir einstaklinginn, heldur líka alveg sérstaklega flækjustig skattkerfisins. Hv. þingmaður nefndi að það væri ýmislegt til frádráttar í dag, einkennisbúningar o.fl. og hann gat ekki talið það upp vegna þess að það er svo flókið. Ekki veit ég hvað það er og ekki hv. þingmaður heldur. Menn þurfa að setjast niður og fá skattasérfræðing til að vita hvað megi draga frá. Þetta er einmitt það sem ég vil hindra og forðast, það er flækjustigið, því að hinn almenni skattgreiðandi þarf að vita það til að geta nýtt það. Mjög margir munu keyra langan veg án þess að nýta þennan frádrátt ef þeir ekki vita af honum, það er nefnilega einmitt það sem gerist.

Varðandi koltvíoxíðslosunina fannst mér svar hv. þingmanns mjög athyglisvert. Hann sagði að menn mundu keyra hvort sem er. Ef allir íbúar jarðarinnar hugsuðu svona getum við gleymt því að það verði einhver niðurskurður á koltvíoxíðslosun á jörðinni.