135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[15:14]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er dapurlegt þegar hv. þingmaður kemur hér upp og segir að ef verkefni er í Norðausturkjördæmi þá eigi kostnaðarmismunur að falla á ríkissjóð, ef hann er í Norðvesturkjördæmi þá eigi hann að greiðast af kjördæmafé. Það er dapurlegt þegar 1. þm. Norðausturkjördæmis kemur til að ræða um verkefni varðandi Hvalfjarðargöng að þá á teflir hann fram öðrum verkefnum sem rökum gegn því. Það er að mínu mati algerlega óþarfi. Hann getur haft þá skoðun að það sé rétt að berjast fyrir göngum undir Vaðlaheiði eða vegi yfir Kjöl. En ég átta mig ekki á því hvers vegna hann tengir þau verkefni við afnám veggjalds í Hvalfjarðargöngum. Hann teflir því hvoru á móti öðru. Ég spyr: Hvers vegna er það, virðulegi forseti? Jú, vegna þess að hann er á móti þessu og hann er bara að reyna að finna einhver rök til að rökstyðja það. Ég spyr: Er hv. þingmaður að boða það að hann muni gera kröfu um þessi verkefni, þ.e. að ríkissjóður borgi Kjalveg og jarðgöng undir Vaðlaheiði, til þess að hann fallist á að ríkið yfirtaki skuldirnar í Hvalfjarðargöngunum? Eru þetta svona gamaldags pólitísk hrossakaupatilboð sem hv. þingmaður er að bjóða upp á? Ég vil segja það að ég verð enn þá daprari eftir því sem ég kafa betur ofan í þessa skrýtnu ræðu hv. þingmanns.