139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[14:38]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu um þingsályktunartillöguna um jafnréttisáætlunina sem hefur verið málefnaleg og upplýsandi og margar góðar hugmyndir komið fram. Meðal annars vakti athygli mína sú tillaga sem mér finnst endilega að þurfi að framkvæma, og ég veit að hv. formaður félags- og tryggingamálanefndar tók undir, þ.e. að leita til fleiri þingnefnda um þessa jafnréttisáætlun vegna þess að ég held að það sé mjög hollt að sem flestar þingnefndir fjalli um málið enda er það mál sem á að vera á ábyrgð allra. Jafnrétti á ekki að vera fagumræða sem hún hefur því miður orðið oft og tíðum. Oft hefur það verið þannig að maður hefur fundið sig örlítið utan við umræðuna vegna þess að maður hefur ekki kunnað rétta orðanotkun. Þannig má það ekki vera og alveg eins og hv. síðasti ræðumaður, Þórunn Sveinbjarnardóttir, benti réttilega á þurfa menn að nota íslenskt mál og tæpitungulaust mál til að reyna að skýra afstöðu sína í þessum málaflokki. Jafnréttismálin eru klárlega mannréttindi og við megum aldrei stoppa í þeirri vinnu að leita eftir sem mestu mannréttindum og raunar á hvaða sviði sem er.

Hér hefur verið bent á ýmis atriði sem hafa komið fram einmitt hvað varðar þessa orðanotkun og skilgreiningar. Rætt hefur verið um m.a. ráðningarferli hjá ríkinu sem mér finnst skipta mjög miklu máli. Þar hafa að vísu orðið verulegar breytingar á sumum sviðum en það þarf að vera vakandi fyrir þessu og hvernig við getum tryggt að ávallt sé gætt jafnræðis og líka tekið tillit til menntunar, reynslu og ákveðinnar sérþekkingar.

Allt þetta verður til frekari umræðu á jafnréttisþinginu 4. febrúar sem verður á Nordica og ég treysti á að þingmenn mæti þar og raunar sem allra flestir og taki þátt í umræðunni. Við vorum að ræða hér það sem ég ítrekaði í upphafi máls míns eða í inngangsræðu minni að það eru fyrst og fremst tvö birtingarform af ójafnréttinu sem svíður verulega undan. Það er launamisréttið sem hér hefur líka verið mikið rætt, þ.e. að illa hefur gengið að uppræta þann kynbundna launamun sem ítrekað mælist og er til staðar í landinu, og hins vegar ofbeldi gegn konum. Og af því að áðan var einmitt verið að ræða um hvað ætti að kalla þetta, kynbundið ofbeldi eða eitthvað annað, er ástæða til að vekja athygli á því að í nýútkominni skýrslu er þetta einmitt kallað rannsókn á ofbeldi gegn konum. Þar eru verulega sláandi tölur sem benda okkur náttúrlega á að við þurfum heldur betur að halda vöku okkar og tryggja að við búum ekki í samfélagi þar sem fjórar konur af hverjum 100 hafa orðið á síðustu tólf mánuðum fyrir ofbeldi af ýmsum birtingarformum. Þegar maður áttar sig á hvað það eru margir einstaklingar á bak við þetta er alveg með ólíkindum að við skulum ekki búa betur en þetta í jafnvelstæðu samfélagi.

Í þessari könnun kemur líka fram að 42% svarenda, þ.e. kvenna á aldrinum 18–80 ára, hafa orðið fyrir ofbeldi af einhverju tagi a.m.k. einu sinni og þá erum við að tala um birtingarmynd ofbeldis, það eru tilgreind þarna tólf atriði sem eru allt frá hótunum um líkamlegt mein yfir í nauðgun og alvarlegt ofbeldi. Það eru 42% sem segjast hafa einhvern tíma á þessu æviskeiði sínu orðið fyrir einhverju slíku ofbeldi. Þetta eru þeir blettir sem mér finnst svíða hvað sárast undan, þ.e. launamismunurinn og þetta. Við höfum því verk að vinna og ég treysti á og veit að hv. félags- og tryggingamálanefnd mun taka málið til ítarlegrar umfjöllunar, bæta þær tillögur sem hér koma fram og treysti á að þingið muni svo fylgja þeim eftir bæði með fjármagni og aðhaldi þannig að við getum stigið enn eitt jákvætt skref í átt til jafnréttis á Íslandi.