139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðgöngumæðrun.

310. mál
[16:52]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Ég virði það algjörlega við þingmanninn að hún hafi ekki myndað sér skoðun á þessu máli vegna þess að eins og ég ítrekaði og hún nefndi reyndar, tók það mig nokkurn tíma að komast að niðurstöðu. Ég verð þó að viðurkenna að það tók mig ekkert mjög langan tíma. Það sem ég lýsti hér áðan voru fyrstu viðbrögð mín. Um leið og ég fór að skoða málið og skoðaði kosti þess og galla, komst ég fljótt að þeirri niðurstöðu að við ættum að heimila staðgöngumæðrun á þeim forsendum sem ég hef nefnt.

Við eigum að sjálfsögðu ekki að flýta okkur það mikið að við vöndum ekki til lagasetningar. Ég vil þó ítreka að þetta er þannig mál að við verðum að flýta okkur aðeins vegna þess að klukkan tifar hjá þeim fjölmörgu einstaklingum um ræðir. Það er fólk sem komið er leiðina á enda í þessu efni. Það er fólk sem varið hefur mörgum árum í að reyna að eignast barn með hefðbundnum hætti, hefur farið í gegnum tæknifrjóvgunarleiðir, verið á listum til ættleiðingar út um heiminn þar sem eru mjög ströng skilyrði og oft fylgja því mikil vonbrigði þegar það gengur ekki af einhverjum ástæðum. Við verðum því að hafa í huga að við þurfum að afla okkur allra upplýsinga þegar við tökum ákvörðun um málið. Við þurfum að ræða okkur í gegnum það, við þurfum bara að henda okkur í það.

Ég er algjörlega sammála hæstv. utanríkisráðherra sem sagði áðan að það væri kominn tími til að við tækjum af skarið. Stundum eru mál bara þannig að við getum endalaust rætt þau en á einhverjum tíma verður að taka ákvörðun. Ég er ekki að leggja þingmanninum til skoðanir eða segja henni hvernig hún á að greiða þessu máli atkvæði, en ég hvet hana til að skoða það, fara í gegnum meðrök og mótrök. (Forseti hringir.) Ég er sannfærð um, eins skynsöm hv. þingmaður er, að hún verði tiltölulega fljót að komast að niðurstöðu.