140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

álögur á eldsneyti.

482. mál
[17:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Eldsneytisverð er lægra á Íslandi en í helstu samanburðarlöndum, til dæmis í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Auk þess eru álögur hins opinbera á eldsneyti hér á landi lægra hlutfall af útsöluverði en í þessum löndum. Af þeim sökum auk þeirrar staðreyndar að ríkisstjórn heyr nú harða baráttu við að gera ríkisfjármálin sjálfbær eru ekki sterk rök fyrir því að lækka álögur á eldsneyti tímabundið.

Þá skal hafa hugfast að óvíst er að hversu miklu leyti ávinningurinn af slíkri tímabundinni lækkun mundi falla í skaut neytenda. Það er ólíklegt að eldsneytisverð lækki á næstu missirum. Hugsanlegum áformum um að lækka álögur á eldsneyti til frambúðar þyrfti að fylgja áætlun um aðgerðir sem mundu vega á móti tekjutapi ríkissjóðs af lægri eldsneytisálögum.

Undanfarna daga hefur verið umræða um hugmynd sjálfstæðismanna um að lækka vörugjöld af eldsneyti þannig að bensínverð færi í 200 kr. Í fjármálaráðuneytinu hefur verið reiknað út hvað slíkt mundi kosta ríkissjóð. Talið er að það mundi kosta 12–14 milljarða kr. Á tímum þegar við berjumst við að ná endum saman og erum enn að skera niður í velferðarþjónustunni — þar er niðurskurður fyrir árið 2013 áætlaður 5 milljarðar, þó erum við komin vel á veg — held ég að það væri afskaplega óskynsamlegt að fara í slíkar aðgerðir.

Hins vegar ættu hv. þingmenn að beina sjónum sínum að orkuskiptum í samgöngum. Það er framtíðarsýnin. Við orkuskiptin minnkum við og drögum úr notkun jarðefnaeldsneytis og nýtum í staðinn aðra umhverfisvænni orkugjafa eins og vatnsorku, jarðhita, vind- og sólarorku, metan og lífdísil. Eitt af meginmarkmiðum orkustefnu fyrir Ísland er að draga úr notkun olíu og bensíns með orkusparnaði og orkuskiptum. Þarna eiga áherslur okkar að vera vegna þess, virðulegi forseti, að ekkert bendir til þess að verð á olíu og bensíni muni lækka á næstu missirum. Að hugsa þetta þannig að við þurfum bara að lækka verðið tímabundið og sjá svo hvað setur, væri óábyrg stefna í ríkisfjármálum. Skynsamlegast er að horfa til framtíðar. Hvernig getum við dregið úr notkun olíu og bensíns á Íslandi? Það skiptir líka máli fyrir orkuöryggi okkar. Síðan þyrftum við að finna út hvernig ætlum við að ná inn ríkistekjum þegar við erum komin vel á veg með að skipta um orku í samgöngum.

Núna falla 0,4% ökutækja undir skilgreininguna vistvæn ökutæki. Markmiðið sem stefnt er að er að árið 2020 verði 20 þús. bílar á Íslandi knúnir áfram af endurnýjanlegum orkugjöfum. Til að ná því þarf samstillt átak og við þurfum helst að gera enn betur vegna þróunar á þessum markaði. Ég hvet því hv. þingmenn að beina kröftum sínum í þá átt að skapa þá aðstöðu að orkuskipti í samgöngum geti gengið fljótt og vel fyrir sig á Íslandi.