140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

stefna í geðverndarmálum.

434. mál
[19:24]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég get deilt þeirri skoðun að full ástæða væri til þess að vera með geðverndarstefnu, enda hefur töluvert verið fjallað um málaflokkinn og mikið verið rætt um að við séum kannski of læknismiðuð, þ.e. of lyfjamiðuð í meðferðum. Samtímis vil ég samt vara við því að menn stilli þessu upp sem valkostum á milli tveggja þátta því að þetta verður auðvitað að vinna mjög vel saman.

Ég vil líka vekja athygli á því að ýmis mál hafa verið til umfjöllunar, m.a. velferðarvaktin sem hefur verið starfandi allt tímabilið eftir að kreppan skall á. Eitt af því sem þar hefur verið rætt og þarf auðvitað að gera betur er að styrkja heilsugæsluna í forvarnastarfi, bæði varðandi sálfræðihjálp og geðhjálp á þeim stöðum.

Það er rétt sem hv. þm. Eygló Harðardóttir nefnir að vandinn hefur vaxið og áhrifin en það minnir okkur kannski líka á þann lífsstíl sem við höfum tamið okkur og það stress sem við höfum búið við í umhverfi okkar. Við þurfum að einhverju leyti að snúa til baka og gefa okkur betri tíma til að vera saman sem að sumu leyti hefur gerst eftir kreppu eins merkilegt og það er.

Ég vil svo í lokin nefna að það skiptir gríðarlega miklu að opinber velferðarþjónusta sé í góðu lagi og leggi sitt af mörkum í geðvernd landsmanna en það er útilokað að hún sinni sínu hlutverki ein. Því hefur verið lögð mikil áhersla á víðtækt samstarf og stuðning við frjáls félagasamtök, sjálfstætt starfandi fagfólk, sveitarfélög, stofnanir og önnur stjórnvöld, menntastofnanir, lögreglu, kirkju, Rauða krossinn. Ég nefndi áður velferðarvaktina, Hugarafl og Geðhjálp en einnig HIV-samtökin, Blátt áfram, Hlutverkasetur, svo fleiri aðilar séu nefndir. Allir þessir aðilar vinna mjög mikilvægt starf og grípa utan um ákveðinn hluta hópsins og eins aðilar sem hafa verið að vinna varðandi baráttuna gegn sjálfsvígum. Það er svo á okkar ábyrgð að reyna að stilla þessi samtök saman, að þau vinni saman að sameiginlegum markmiðum, og við stöndum vaktina eins þétt og við mögulega getum.