144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.

512. mál
[21:16]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.

Frumvarpið var unnið í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í samstarfi við Mannvirkjastofnun og Bændasamtök Íslands og í samráði við aðra haghafa. Frumvarpið var lagt fram til kynningar á 143. löggjafarþingi og er nú lagt fram með nokkrum orðalagsbreytingum auk þess sem bætt hefur verið inn ákvæði um bálkesti.

Tilefni frumvarpsins er sú sameiginlega afstaða ráðuneytisins hlutaðeigandi stofnana og annarra haghafa að gera þurfi breytingar á gildandi lögum, nr. 61/1992, um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi, með það fyrir augum að draga úr sinubrunum. Tilgangur frumvarpsins er því að setja frekari reglur um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að það felli úr gildi núgildandi lög um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi.

Meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja öryggi og heilsu fólks, koma í veg fyrir eignatjón og draga úr mengun og skaða á umhverfinu. Löggjöfinni er ætlað að vera fyrirbyggjandi og fjalla almennt um ýmsar varúðarráðstafanir vegna hættu á gróðureldum.

Stuðst er við ákvæði gildandi löggjafar, en lagt til að heimild til sinubrennu verði þrengd og ákvæði um sinubrennur og meðferð elds utandyra verði gerð strangari og markvissari. Í frumvarpinu er fjallað um meðferð elds á víðavangi og skyldu til þess að gæta ýtrustu varkárni við meðferð hans. Sérstaklega er fjallað um sinubrennu og tiltekið að sinubrennur eru eingöngu heimilaðar á lögbýlum þar sem stundaður er landbúnaður og einungis í rökstuddum tilgangi í jarðrækt eða búfjárrækt. Lagt er til að óheimilt verði að brenna sinu þar sem almannahætta stafar af eða tjón getur orðið á náttúruminjum, fuglalífi, mosa lyng- eða trjágróðri, skógi eða mannvirkjum.

Í frumvarpinu er lagt til að einungis ábúendur eða eigendur jarða geti fengið leyfi sýslumanns til sinubrennu eftir 1. apríl og fyrir 1. maí ár hvert að uppfylltum nánari skilyrðum í reglugerð. Þó er gert ráð fyrir að sýslumaður geti að höfðu samráði við ráðuneytið lengt tímabilið samtals um einn mánuð ef sérstakar veðurfarslegar ástæður gefa tilefni til. Lagt er til að utan þessa tímabils verði hvarvetna óheimilt að brenna sinu, en þannig eru lagðar til þrengri tímasetningar en í gildandi lögum.

Í frumvarpinu er lagt til að leyfi sýslumanns þurfi fyrir bálköstum og að fengnu samþykki slökkviliðsstjóra og starfsleyfi heilbrigðisnefndar, þ.e. þar sem brennt er meira en einum rúmmetra af efni. Byggir það á áralangri framkvæmd þar sem gerð er krafa um leyfi lögreglustjóra. Meðal þess sem mundi falla undir þetta ákvæði eru áramótabrennur, en rík ástæða er talin til að hafa sterka umgjörð um þær og sambærilega bálkesti í ljósi þeirrar hættu sem af þeim kann að stafa.

Það nýmæli er lagt til í frumvarpinu að sveitarstjórnum verði heimilt að afmarka svæði í brunavarnaráætlunum þar sem óheimilt sé að brenna sinu vegna þeirrar hættu sem af því getur stafað. Einnig er gert ráð fyrir að slökkviliðum verði heimilt að fara fram á endurgreiðslu á kostnaði vegna útkalls ef um saknæman verknað er að ræða.

Í frumvarpinu er enn fremur ákvæði um gjaldtöku, bótaábyrgð og viðurlög. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrri að Mannvirkjastofnun muni hafa eftirlit með framkvæmd þeirra og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.