144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

fríverslunarsamningur við Japan.

127. mál
[21:21]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktun sem felur í sér að ríkisstjórninni verði falið að hefja undirbúning fríverslunarsamnings við Japan á grundvelli yfirlýsinga sem japanska ríkisstjórnin hefur sent frá sér um að auka hlut fríverslunar í milliríkjaviðskiptum.

Þessa tillögu flutti ég líka á síðasta þingi en hún komst ekki til umræðu þá. Um tillöguna er í sjálfu sér fátt eitt að segja. Það eru sérstök efni til að leggja hana fram núna. Á næsta ári held ég að segja megi að verði 60 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Japans og þá er vel við hæfi að svona tillaga verði samþykkt.

Það eru töluvert sterk viðskipti á millum Íslands og Japans. Við erum að flytja þangað út afurðir og varning frá Íslandi sem svarar til 12 milljarða kr. Á móti eru Japanir að flytja til Íslands verðmæti eða varning sem nemur andvirði 8 milljarða á hverju ári. Þetta eru töluverð viðskipti og fyrir okkur eru þau nokkuð sem skiptir verulega miklu máli. Auðvitað er hlutur Japana sem hingað er fluttur sem hlutfall af þeirra útflutningi afskaplega lítill, þannig að það má kannski segja að það sé ekkert sérstakt sem knýr á um það af þeirra hálfu að slíkur samningur verði gerður. Annað gildir hins vegar um okkur. Staðan er þannig að af þeim 12 milljörðum sem við flytjum út eru 8 milljarðar afurðir úr sjávarútvegi. Þarna er um að ræða mikilvægan markað fyrir tegundir eins og loðnu, karfa, grálúðu, lax og sömuleiðis hafa í Japan þróast markaðir fyrir ýmsar nýjar afurðir og ég nefni þá sérstaklega loðnuhrogn.

Hingað flytja Japanir einkum ýmiss konar rafmagnstæki og sömuleiðis bíla og varahluti í bíla. Það sem er merkilegt þegar maður skoðar þessi gagnkvæmu viðskipti millum þjóðanna er sú staðreynd að 75% af útflutningi okkar er fiskur og allar fiskafurðir bera toll, 5% toll. Það er töluvert hár tollur í milliríkjaviðskiptum og skiptir miklu máli til þess að ná sterkari markaðsstöðu og festa betur rætur fyrir þessar afurðir að afnema þann toll. En þegar maður skoðar á hinn bóginn það sem flutt er frá Japan til Íslands blasir við að nánast allt af því er tollfrjálst. Þarna er því mjög merkilegt misvægi að því er tolla varðar á millum Íslands og Japans. Þetta gerir það að verkum að það er ekkert sérstakt sem knýr á um það af hálfu Japana að verða sér úti um fríverslun við Ísland. Það skiptir hins vegar ákaflega miklu máli fyrir okkur.

Ég sagði áðan að það væri kannski sérstakt tækifæri núna til þess að leita hófanna af mikilli festu um fríverslun við Japan. Ástæðan er ekki aðeins sú að með því væri mjög verðugt að fagna tímamótunum í stjórnmálasambandssögu landanna tveggja, eins og ég gat um áðan er á næsta ári 60 ára afmæli stjórnmálasambands ríkjanna tveggja. Það er annað sem gerir það líka að verkum, japönsk stjórnvöld hafa á síðustu árum opnað Japan í ríkari mæli en áður fyrir milliríkjaviðskiptum. Það hefur meðal annars birst í því að þeir hafa leitað eftir fríverslunarsamningum við ýmsar þjóðir og þeir hafa bókstaflega lýst því yfir að þeir leggi áherslu á að gera slíka samninga við ríki sem búa að sterkum auðlindum. Þar má segja að Ísland skipi sér mjög hátt á blað, bæði vegna endurnýjanlegra orkuauðlinda okkar en ekki síður vegna fiskafurðanna sem við framleiðum. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að það skipti miklu máli fyrir okkur að nýta þetta tækifæri og nýta þann áfanga sem verður á næsta ári í stjórnmálasögu okkar til að ná þessum viðræðum.

Ég flutti þessa tillögu í fyrra líka vegna þess að það var þá sem Japanir gerðu breytingar á utanríkisstefnu sinni að því er viðskipti varðar. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst sem minn ágæti eftirmaður, hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson, hafi ekki lagt nógu mikla festu í þetta. Þegar hingað kom til lands á síðastliðnu sumri Makino, aðstoðarutanríkisráðherra Japans, kom það algjörlega skýrt fram á fundi sem fulltrúar allra þingflokka áttu með honum að það höfðu ekki verið miklar viðræður af hálfu þess gests sem hann hafði sótt heim fyrr um daginn, þ.e. hæstv. utanríkisráðherra, um þetta efni. En svo öllu sé til haga haldið er rétt að taka alveg skýrt fram að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur í heimsóknum til Japans og sömuleiðis þegar hann tók á móti japönskum ráðherra hér á síðasta sumri lagt á þetta áherslu. Mér er í fersku minni að þegar fjölmiðlar sögðu frá fundi hæstv. utanríkisráðherra og Makino aðstoðarutanríkisráðherra var fyrirsögnin svona: „Fríverslun viðruð.“ Það er ekki nóg. Það þarf miklu meiri þunga í þetta.

Ástæðuna fyrir því að við þurfum að sinna þessu máli af töluverðri festu er kannski fyrst og fremst smæð Íslands og sú staðreynd sem ég gat um áðan, að það er verulegt misvægi varðandi tolla í viðskiptum milli landanna sem birtist í því að obbinn, eða 75%, af útflutningi okkar þarf að inna af höndum tolla en það er miklu minna sem Japanir þurfa að greiða.

Nú kann það að valda nokkurri undrun hjá hv. þingmönnum sem hafa lesið þetta þingmál og greinargerðina sem með því fylgir að ekki skuli koma fram í tölum hvernig þetta misvægi lítur út. Ég sagði áðan að ég teldi að 75% af viðskiptum okkar þyrftu að sæta tollum en ég nefndi enga tölu fyrir Japan. Ég hef ekki nákvæmar tölur um þetta en ég fór þær leiðir sem þingið heldur opnum fyrir mig til að afla upplýsinganna, ég lagði fram skriflega fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra. Mér til mikillar furðu var svarið efnislega það að utanríkisráðuneytið hefði ekki upplýsingar um þetta. Það kom mér mjög á óvart. Ég taldi að þegar um væri að ræða svo mikilvæga þjóð eins og Japan hefði ráðuneytið upplýsingar um þetta. Það kom mér líka á óvart vegna þess að þegar ég réð þar húsum um skamma hríð fyrr á þessari öld þá að minnsta kosti — án þess að ég geti staðreynt það með því að leita til heimilda sem mér eru ekki bærar núna — var það skoðun mín og samstarfsmanna minna að það hlutfall af innflutningi frá Japan til Íslands sem Japanir þyrftu að greiða toll af væri á bilinu 2–5%. Þetta er alveg ótrúlega mikill munur þegar viðskipti þjóðanna eru skoðuð. Það er ekki síst vegna þessa sem ég tel að til að ná jafnvægi í samskiptum þjóðanna á sviði utanríkisviðskipta sé þetta mjög mikilvægt. Ég tel ekki að við getum látið bjóða okkur stöðu af þessu tagi miklu lengur.

Í framhaldi af þeirri yfirlýsingu sem japönsk stjórnvöld gáfu um opnun gagnvart umheiminum hafa Japanir nú þegar lokið 14 fríverslunarsamningum við ýmis ríki og ríkjabandalög í sínum heimshluta og síðast við Ástralíu á síðasta sumri og það standa yfir viðræður við nokkur fleiri. Það vekur athygli að eitt evrópskt ríki, sem þar að auki tilheyrir EFTA, Sviss, hefur þegar lokið gerð tvíhliða samnings við Japan án atbeina EFTA. Það eru sömuleiðis samningar í gangi millum Japans og Evrópusambandsins. Frá sjónarhóli íslenskra hagsmuna tel ég því mjög brýnt að Ísland hefji fyrr en seinna viðræður um fríverslun við Japan til þess að halda samkeppnisstöðu sinni gagnvart þeim þjóðum sem við erum að keppa við í Evrópu. Þá gildir mig og flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu einu hvort fríverslun við Japan verði tryggð fyrir atbeina EFTA eða hvort það verði ráðist í gerð tvíhliða samnings á millum ríkjanna.

Núna er við völd í Japan ríkisstjórn undir forustu Shinzo Abe. Hann var fyrst kosinn í desember 2012 og setti þá þegar fram nýja efnahagsstefnu sem hann að hætti hinna fornu japönsku samúræja kenndi við „örvarnar þrjár“. Undir þriðju örina falla einmitt áform um að auka verulega hlut fríverslunar. Hún nær nú einungis yfir tæpan fimmtung utanríkisviðskipta Japana, en til þess að ná þeim markmiðum sem þriðja örin á að spanna í efnahagsstefnu ríkisstjórnar Shinzo Abe stefna stjórnvöld að því að auka hlut fríverslunar í utanríkisviðskiptum sínum upp í 80%.

Ég tel að ef við höfum ekki hraðann á og knýjum dyra af festu og ákveðni gætum við lent í langri biðröð. Flest ríki í heiminum, ég tala nú ekki um í Evrópu, vilja mjög gjarnan ná fríverslunarsamningum við Japan. Ég nefndi áðan smæð okkar, sem veldur því að viðskipti við Ísland eru kannski ekki hlutfallslega mjög mikilvæg fyrir Japan. Ég nefndi sömuleiðis að það er ekki eftir ákaflega miklu að slægjast hjá Japönum vegna þess að þeir hafa nú þegar náð fram því tollfrelsi sem ég vildi gjarnan hafa á borðinu fyrir íslenska hagsmuni. Þetta felur í sér að það er ákveðið tækifæri núna sem ég tel að við eigum ekki að láta fortapast. Við höfum um langa hríð átt sterk vináttutengsl við Japan. Japan hefur reynst okkur betri en enginn þegar erfiðleikar hafa rekið á okkar fjörur. Ég rifja það sérstaklega upp að þegar bankahrunið reið hér yfir eins og holskefla 2008 var það fjármálaráðherra Japans sem fyrstur steig fram og lýsti því yfir að Japan mundi gjarnan vilja reiða meira fram af höndum til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til þess að skapa svigrúm fyrir lánveitingum til Íslendinga. Það var drengilega gert og sýndi þá vild sem Japanir hafa gagnvart okkur.

Eins og ég hef rakið í þessari framsögu minni hefur viðskiptalíf landanna um langt skeið staðið á traustum merg. Það má segja að Japan og Ísland hafi unnið saman að því að byggja upp á Íslandi orkufrekan iðnað að því marki að um 30 ára skeið höfum við Íslendingar keypt allar þær túrbínur sem notaðar hafa verið í íslenskum orkuverum, a.m.k. vatnsaflsverum og að ég hygg líka í jarðorkuverum, frá Japan með ákaflega þekkilegum og hagstæðum kjörum að því er fjármögnun varðar fyrir okkur.

Herra forseti. Ég hef núna í stuttu máli gert grein fyrir þessari þingsályktunartillögu. Ég vil geta þess að fyrir utan mig, sem er 1. flm, er þetta mál flutt af mörgum þingmönnum, þeim hv. þingmönnum Vilhjálmi Bjarnasyni, Óttari Proppé, Steingrími J. Sigfússyni, Katrínu Júlíusdóttur, Helga Hjörvar, Kristjáni L. Möller og Valgerði Bjarnadóttir. Af þessari upptalningu má ráða að tillagan nýtur breiðs stuðnings hér á Alþingi Íslendinga. Ég vil sömuleiðis geta þess í lokin að þegar við fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á þingi áttum fund síðastliðið sumar með Makino, aðstoðarutanríkisráðherra Japans, kom það skýrt fram af hálfu allra fulltrúanna að þeir lögðu á þetta mikla áherslu, raunar svo að þetta var það mál sem allir íslensku fulltrúarnir báru fram hvað sterkast. Enginn þarf því að fara í grafgötur um vilja þingsins. Nauðsynin er skýr og það sem skiptir mestu máli, það er tækifæri núna.

Herra forseti. Ég legg því til að að lokinni þessari umræðu verði þessari þingsályktunartillögu vísað til hv. utanríkismálanefndar. Ég er sannfærður um að þegar hún hefur unnið málið og fengið umsagnir og málið kemur aftur inn í þingið mun sá stuðningur birtast.