146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

störf þingsins.

[15:37]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Undanfarna daga hafa umræðan og vinnan í þinginu einkennst af fyrirliggjandi fjármálaáætlun til ársins 2022. Í þeirri umræðu hefur skiljanlega farið mikið fyrir umræðu um heilbrigðiskerfið þar sem heilbrigðiskerfið er ein af þeim grunnstoðum sem við sem samfélag höfum komið okkur saman um að standa góðan vörð um — fyrir alla.

Í skýrslu sem kennd er við McKinsey — sem gerð var í samstarfi við velferðarráðuneytið, embætti landlæknis og Landspítalann, til að skýra hvaða breytingar þurfi að gera á íslenska heilbrigðiskerfinu til að beina þróuninni í átt að heildstæðri þjónustu fyrir þjóðina — kemur meðal annars fram að þó að Ísland komi almennt vel út, þegar gæði heilbrigðisþjónustu er borin saman á milli landa, sé kerfið að sumu leyti óskilvirkt, sem stuðli líklega að því að meiri fjármunir eru notaðir en nauðsyn krefur. Skýrslan er skýr um að það virðist því skorta heildarstefnu innan heilbrigðiskerfisins.

Allir mismunandi angar umræðunnar, þá til dæmis um einstakar stofnanir heilbrigðiskerfisins, skipta miklu máli og eru gagnlegir til betrumbóta, ekki hvað síst fyrir þær einstöku stofnanir. En ég vil fá að nota tækifærið hér, hæstv. forseti, og ræða einnig þann mikilvæga punkt skýrslunnar að horfa og ræða um kerfið sem heild. Engin stofnun innan kerfisins er eyland heldur partur af heild. Aukin áhersla á heilsugæsluna, fjölgun hjúkrunarrýma og verkaskipting við sérfræðinga einkastofa eru til að mynda allt atriði sem eiga að koma öðrum stofnunum, til að mynda Landspítalanum, til góða.

Ég vildi minnast á þetta til að minna á mikilvægi heildarsýnar í umræðunni sem og að fagna því að í fyrirliggjandi fjármálaáætlun er gert ráð fyrir fjármagni til að setja í slíka heildstæða samræmingarvinnu. Það er mikið unnið með því að lögð sé áhersla á slíka vinnu í þágu kerfisins alls og betri þjónustu við alla sjúklinga.