146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

lyfjaneysla Íslendinga.

[16:01]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að þakka málshefjanda fyrir að setja þetta efni á dagskrá þingsins í dag. Það er sannarlega mikilvægt að við fylgjumst mjög vel með og rannsökum þessa þróun, að við rannsökum ástæður hennar og mögulegar afleiðingar, svo ég tek heils hugar undir það með hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni. Ef við teljum að teikn séu á lofti um að þetta sé óheillavænleg þróun þurfum við að vera undir það búin að grípa í taumana.

Svo ætla ég að leyfa mér að setja líka aðra spurningu fram til íhugunar, allt í lagi að velta upp öllum steinum í þessu, þ.e. hvort sú staðreynd að notkun þunglyndis- og geðlyfja hérlendis sé mikil þurfi eingöngu að vera neikvæð. Ég veit það ekki. Mér þykir þess virði að velta þeirri spurningu upp til umræðu. Samkvæmt „World Happiness Report“ sem gefin er út af Sameinuðu þjóðunum eru Íslendingar þriðja hamingjusamasta þjóð í heimi og fylgja þar fast á hæla Norðmönnum og Dönum. Í því samhengi má spyrja sig hvort það sé fylgni milli þessa, þ.e. á milli lyfjanotkunarinnar og aukinnar velsældar eða hamingju. Gæti verið að við værum að draga úr mögulegri misnotkun á öðrum miðlum, svo sem áfengi og vímuefnum? Hefur fylgni milli þessa verið rannsökuð?

Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra væri tilbúinn að deila með mér vangaveltum sínum um þetta.