146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landmælingar og grunnkortagerð.

389. mál
[17:19]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Í meginatriðum er ég nokkurn veginn sammála því að þessi gögn eigi að mestu leyti að vera aðgengileg. Það veldur mér hins vegar áhyggjum að í 5. lið, um samráð, segir með leyfi forseta:

„… Landmælingar Íslands hefji framleiðslu á landupplýsingum til þess að koma upp slíkum landupplýsingagrunni enda kallaði slík ráðstöfun á verulega auknar fjárheimildir til stofnunarinnar. Þess í stað er gert ráð fyrir að Landmælingar Íslands notist við landupplýsingar sem verða til vegna hinna ýmsu verkefna stofnunarinnar við uppbyggingu landupplýsingagrunns sem og landupplýsingar sem verða til hjá öðrum ríkisstofnunum og sveitarfélögum. Í flestum tilvikum er gerð þessara landupplýsinga nú þegar á hendi einkaaðila.“

Vegagerðin safnar þessum upplýsingum við vinnu sína og aðrar stofnanir, en þarna er gert ráð fyrir því að einkaaðilar haldi áfram.

Síðar segir:

„Að lokum er rétt að ítreka að verði frumvarpið að lögum er gengið út frá því að landupplýsingar sem Landmælingar Íslands og aðrar stofnanir íslenska ríkisins munu kaupa til að koma upp, viðhalda og miðla landupplýsingagrunni verði keyptar eða leigðar af einkaaðilum, svo sem á grundvelli útboða.“

Ég hef áhyggjur af því, þegar við erum farin að deila upplýsingunum sem við kaupum af einkaaðilum og einkaaðilinn veit fyrir fram að við ætlum að deila þeim upplýsingum, að hann fari að okra á okkur út í horn. Verður ekki okurverð á þessum upplýsingum? Þurfum við ekki að ganga þannig frá því að Landmælingar Íslands sjái um landmælingar og breyta nafninu á stofnuninni í Stofnpunktaupplýsingar Íslands eða eitthvað?

Annars lítur þetta vel út. Það er bara það að einkaaðilar framselji þennan rétt áfram; að það kosti ríkið — ég veit það ekki — milljarða að gera þetta.