146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[19:39]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður lagði ætlun í ákveðinn tón í rödd sem var, að sögn, viðhafður áðan. Ég varð allhissa og verð eiginlega að vísa því á bug ef ég á að segja eins og er og biðst afsökunar ef ég hef virkað eitthvað pirruð í andsvörum við hv. þm. Andrés Inga Jónsson. Þetta hlýtur að vera staðurinn — hvar annars staðar en hér? — þar sem ráðherrar og hv. þingmenn ræða um svo mikilvæg mál sem landgræðslan og skógræktin eru. Það verður auðvitað að fá að gerast án þess að ætlun í tón sé oftúlkuð.

Ég vildi bara hafa nefnt það.

Hv. þingmaður nefndi framsýni í þessu frumvarpi og hafði orð á því hvort við ættum frekar að skoða, ef ég heyrði rétt hjá hv. þingmanni, lög um vistendurheimt. Þetta er einmitt það. Þetta eru lög um landgræðsluna. Gamli lagabálkurinn er orðinn gamall og við þurfum að uppfæra lögin. Landgræðslan felst ekki núna (Forseti hringir.) eingöngu í að sá í mel. Hún er að endurheimta vistkerfi, votlendi og annað. Þess vegna eru verkefnin svo rosalega brýn, t.d. í því sem hv. þingmaður nefndi áðan, loftslagsmálum.