149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Nýársblað Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi kom út á dögunum. Á meðal efnis er viðtal sem Þorlákur Helgi Helgason, framkvæmdastjóri Olweusar-verkefnisins gegn einelti á Íslandi, tók við Hjalta Tómasson, eftirlitsfulltrúa stéttarfélaganna á Suðurlandi. Viðtalið ber yfirskriftina: Útlendingar eru líka fólk. Þar talar Hjalti opinskátt um að allt of margir á vinnumarkaði séu í vondri stöðu og leggur áherslu á að við gætum að réttindum fólksins sem kemur til landsins til að vinna. Langflestir atvinnurekendur vilja halda samninga en þó megi finna hið gagnstæða sem helst lýsir mansali, það sé ljótasta birtingin á mannlegum samskiptum og áhugaleysi og vanþekking innan stjórnkerfisins sé mikið áhyggjuefni.

Hjalti segir, með leyfi forseta:

„Mansal er einn af gróðavænlegustu glæpum sem framdir eru á alþjóðlegum vettvangi og líka ein óþverralegasta tegund gróðahugsunarinnar sem hægt er að hugsa sér því auðvitað er það gróðafíknin sem ræður för, gróðafíkn sem gerir þá kröfu að þú leggir manneskjuna í þér til hliðar og lítir á annað fólk sem hluti eða verslunarvöru en ekki manneskjur sem þú getur samsamað þig við.“

Varla finnst betri lýsing á því hugarfari að þykja í lagi að hneppa aðra manneskju í ánauð sjálfum sér til hagnaðar, hvort sem sá hagnaður er af fjárhagslegum, kynferðislegum eða öðrum toga.

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, sagði í viðtali á Hringbraut nýlega að allan síðasta áratug hefðu eingöngu þrjú mansalsmál verið kærð og eitt farið alla leið í gegnum dómskerfið, hins vegar sé alveg ljóst að staðan sé miklu alvarlegri en það.

Forseti. Staða þessara mála sem er tilkomin vegna græðgi (Forseti hringir.) og mannfyrirlitningar er smánarblettur á íslensku samfélagi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)