151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

skimun fyrir krabbameini.

486. mál
[14:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir hefur beint til mín munnlegri fyrirspurn um skimun fyrir krabbameini. Þingmaðurinn spyr í fyrsta lagi hver afstaða mín sé til tillagna skimunarráðs um að hækka aldur kvenna sem boðaðar eru í brjóstaskimun úr 40 árum í 50 ár.

Eins og fram kom í máli hv. þingmanns hef ég í raun samþykkt tillögu og álit landlæknis á umfangi og aðferðum krabbameinsskimana og þar með talið brjóstaskimun. Tillögur landlæknis byggja á áliti og faglegri ráðgjöf skimunarráðs til landlæknis þar sem tekið er mið af niðurstöðum rannsókna á alþjóðlegum og evrópskum leiðbeiningum um skimanir, tillögur skimunarráðs er í samræmi við það sem gerist í Evrópu og á Norðurlöndum. En í ljósi þeirrar umræðu sem skapaðist vegna tillögu landlæknis og álits skimunarráðsins um að hækka neðri aldursmörk kvenna í brjóstaskimun upp í 50 ár og þar sem rökum fyrir breytingum var ekki miðlað nægilega vel til almennings, og umræðan var ekki nægilega þroskuð, ákvað ég að fresta fyrirhuguðum breytingum á aldursmörkum kvenna, sem boðin er þátttaka í brjóstaskimun, um óákveðinn tíma þar til breytingarnar hafa verið kynntar nægilega vel og samfélagsleg umræða um þær hefur farið fram. Að svo stöddu verður því óbreytt fyrirkomulag á þessum enda aldursbilsins, ef svo má að orði komast, þ.e. frá 40–49 ára, en hins vegar verður farið að tillögum landlæknis og skimunarráðs varðandi fyrirkomulag skimana kvenna frá 69–74 ára, það er aldurinn sem bættist við, þannig að nú er um að ræða skimanir fyrir konur á aldrinum 40–74 ára.

Það hefur ekki áður komið fram í máli mínu en ég tel að rétt sé að taka ákvörðun um frestun um tiltekinn tíma, sem hingað til hefur bara verið talað um að væri um óákveðinn tíma. Það gætu verið tvö ár. Ég held að það skipti máli fyrir alla sem eru þátttakendur í umræðunni, sama hvort það eru þær stofnanir sem hafa verkefnið eða þær konur sem njóta þjónustunnar, sjái fyrir sér einhvern tímapunkt þar sem breytingin á sér stað en ekki að ákvörðunin hangi í lausu lofti.

Hvernig standast tillögur skimunarráðs samanburð við slíka skimun annars staðar á Norðurlöndunum? Mitt svar er að Svíþjóð og Ísland eru ein Norðurlandaþjóðanna sem hefja lýðgrundaða brjóstaskimun, sem svo er kölluð, við 40 ára aldur. Hinar Norðurlandaþjóðirnar, Noregur, Danmörk, Finnland og Færeyjar hefja skimun við 50 ára aldur. Flestar þjóðir í Evrópu, sem og Bandaríkin og Kanada, hefja skipulagða brjóstaskimun við 50 ára aldur. Evrópusambandið miðar við 45 ára aldur í sínum leiðbeiningum. Hérlendis hefur verið miðað við 40 ár undanfarin ár þó svo að komið hafi leiðbeiningar frá landlækni árið 2016 um að miða við 50 ára aldur.

Hv. þingmaður spyr hvaða lönd séu eða hafi verið talin til fyrirmyndar þegar kemur að skimunum fyrir krabbameinum almennt og hvernig Ísland hafi komið út í þeim samanburði fram til þessa. Til að tryggja öryggi og meta árangur þessarar skipulögðu lýðgrunduðu skimunar fyrir krabbameinum, sem er stór og mikilvægur þáttur í forvörnum og fyrirbyggjandi aðgerðum, er nauðsynlegt að alltaf sé fylgt leiðbeiningum sem byggjast á gagnreyndri læknisfræði, verði því við komið. Ísland hefur fyrst og fremst litið til hinna Norðurlandanna og Evrópuþjóða varðandi krabbameinsskimanir og stuðst við evrópskar leiðbeiningar, en í Evrópu hafa verið gefnar út leiðbeiningar um skimun fyrir krabbameini í leghálsi og um skimun fyrir krabbameini í brjóstum. Flestar þjóðir Evrópu byggja sínar leiðbeiningar á þeim leiðbeiningum og fjöldi sérfræðinga hefur komið að því.

Almenn skimun er skoðun á einkennalausum einstaklingum, það skiptir miklu máli að átta sig á því, og markmið slíkrar skimunar er að greina hugsanlegan sjúkdóm á byrjunarstigi og vísa í nánari skoðun. Þannig er mögulegt að greina krabbamein á byrjunarstigi og þá hægt að fjarlægja meinið og bæta lifun. Nýgengi brjóstakrabbameina á Íslandi hefur verið í kringum 90 á 100.000 konur síðastliðin ár en dánartíðni 15 á hverjar 100.000 konur. Frá því að skimun fyrir brjóstakrabbameini hófst hefur nýgengið aukist en á sama tíma hefur dánartíðnin lækkað. Samanburður við hinar Norðurlandaþjóðirnar sýnir að Ísland er með lægra nýgengi en Danmörk og Finnland en hærri en Svíþjóð og Noregur.

Góð þátttaka í skimun er forsenda árangurs. Á Íslandi hefur þátttaka í brjóstaskimun verið í kringum 60% fyrir konur á skimunaraldri, sem er töluvert undir viðmiði samkvæmt Evrópuleiðbeiningum þar sem tilgreint er að 70% sé ásættanlegt, en 75% sé markmiðið. Í Danmörku, Hollandi og Bretlandi hefur þátttakan verið í kringum 75% og í Finnlandi 81%. Eitt af meginmarkmiðunum með flutningi og ábyrgð á brjósta- og leghálsskimunum er að auka þátttöku og líka með því að lækka verðið sem sjúklingur eða einstaklingur þarf að greiða úr eigin vasa.

Varðandi síðan ristilskimun fyrir ristilkrabbameini er sú framkvæmd í undirbúningi.