151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

skimun fyrir krabbameini.

486. mál
[14:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og hv. þingmönnum þátttökuna í umræðunni. Ég ætla að taka undir með hæstv. ráðherra um mikilvægi þessara skimana í forvarnaskyni á lýðheilsugrunni. Eina leið okkar til að takast á við heilbrigðismálin, sem er sívaxandi útgjaldaliður og sá málaflokkur sem við höfum örugglega öll hvað mestan metnað fyrir, er einmitt að efla lýðheilsu. Ég felli skimanir fyrir krabbameini þar undir og þar af leiðandi er auðvitað óásættanlegt að þátttaka í skimunum hér á landi hafi ekki náð nema þessari 60% tölu. Markmið okkar hlýtur að eiga að vera að ná þeirri tölu töluvert upp. Ég hvet hæstv. ráðherra áfram í þeim efnum.

Ég hef skilning á mikilvægi þess að við höfum gott utanumhald um skimanir fyrir krabbameini. Ég hygg að margt gott sé í þeim tillögum og þeim breytingum sem nú er verið að gera, en ég verð að viðurkenna, virðulegur forseti, að ég hef ekki endilega skilning á því að það skipti máli hver framkvæmir skimunina þó að utanumhaldið sé hjá hinu opinbera. Mikilvægt er að krabbameinsskráin sé góð og það sé skýrt hverjir rannsaki og taki sýni. Því ætla ég að nefna sem dæmi leghálskrabbamein. Nú er ætlast til þess að konur fari á heilsugæsluna, sem er gott og gilt, heilsugæslan er mikilvæg í okkar samfélagi, en þetta er eitt af því allra leiðinlegasta sem a.m.k. sú kona sem hér stendur gerir, og þurfa konur þá oft líka að leita til kvensjúkdómalækna. Þess vegna ætti að vera sjálfsagt að kona sem leitar til kvensjúkdómalæknis geti líka fengið þessa þjónustu þar, mér skilst að ekki sé verið að taka það út, en það eigi einhvern veginn ekki að greiða fyrir það. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að skoða það hvort ekki sé eðlilegt að konan sjálf fái að ráða hver taki strokið innan úr leghálsinum.