152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:58]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sína ágætu ræðu. Mig langar aðeins að tala um félagslegan stöðugleika og kjaraviðræðurnar sem eru fram undan. Nú hefur komið mjög skýrt fram, af hálfu Alþýðusambands Íslands, að stuðningur stjórnvalda við húsnæðisöryggi og tilfærslukerfi launafólks muni ráða úrslitum í kröfum verkalýðshreyfingarinnar í kjaraviðræðunum. Hér er það auðvitað nærtæk leið til að draga úr spennu og launaþrýstingi að efla tilfærslukerfin, t.d. að bregðast við með einhverjum hætti til að auka framboð af húsnæði á viðráðanlegu verði og efla barnabótakerfið okkar, kannski vaxtabótakerfið nú á tímum verðþrýstings og hækkandi vaxta.

Hvað varðar framboð af húsnæði þá er það þannig að í Reykjavík t.d. hafa óhagnaðardrifin leigufélög, í samstarfi við borgina, undir forystu jafnaðarmanna, unnið ótrúlega mikilvægt verk. Það sama gildir reyndar um fleiri sveitarfélög á landinu, sérstaklega þau sem eru undir stjórn félagshyggjuflokka. Það skiptir nefnilega máli hver stjórnar. Það kemur svolítið á óvart í þessari fjármálaáætlun að við sjáum að stofnframlög inn í almenna íbúðakerfið eiga að dragast saman. Þau eiga ekki að aukast þrátt fyrir að ráðherrar hafi nú, a.m.k. í orði kveðnu, sýnt skilning á mikilvægi þess að auka framboð af húsnæði á viðráðanlegu verði.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um þetta með tilliti til kjaraviðræðna sem fram undan eru. Hvað þýðir þetta fyrir launakröfur?