Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

Störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Herra forseti. Stefna flestra flokka í heilbrigðismálum er metnaðarfull og vilja flestir gera vel í þeim málaflokki. Til að mynda hefur ríkisstjórnin fest það í stjórnarsáttmála að fara í stórátak í þessum málaflokki, sem ég hef vissulega ekki enn séð í framkvæmd. Þrátt fyrir þessa óumdeilanlegu staðreynd hefur geðheilbrigði okkar setið á hakanum allt of lengi og ríkisstjórnin hefur verið allt of svifasein við að gera úrbætur þrátt fyrir loforð um aðgerðir. Kerfið er þjakað af endalausum biðlistum fyrir greiningar, meðferðir og aðgerðir. Í ofanálag standa of fá úrræði fólki með geðraskanir til boða. Það er hægt að fá innlögn á Hringbraut eða á endurhæfingargeðdeild á Kleppi en þar eru til að mynda bara 18 rúm. Það er bara ekki nóg. Við verðum að horfast í augu við þennan skort og grípa til aðgerða núna strax. Með því að styrkja innviðina styrkjum við samfélagið allt, setjum heilsuna í fyrsta sæti og gerum fólki kleift að sækja sér þá hjálp sem það þarf. Fólk sem glímir við andleg veikindi á erfitt með að sýna sér mildi og gefa sér þann tíma sem þarf til að ná bata. Okkar hlutverk hér er að auðvelda fólki leiðina. Við getum kannski ekki gert mikið í viðhorfinu sem er í samfélaginu gagnvart andlegum veikindum en við getum þó greitt leiðina fyrir fólk til að leita sér hjálpar með því að fara í stórátak í heilbrigðiskerfinu öllu. Styttri biðtími, fleiri úrræði og skilvirkari þjónusta hlýtur að vera eitthvað sem við stefnum öll að þvert á flokka og áherslur þingmanna sem hér sitja. Ég er svolítið þreytt á því að hljóma eins og biluð plata þegar ég tala um úrbætur í heilbrigðiskerfinu en það eru viss forréttindi fólgin í því að geta vakið athygli á þessum málaflokki í ræðustól Alþingis og hvet ég ríkisstjórnina til að gera slíkt hið sama og ráðast í úrbætur í þessum málaflokki.