Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

Störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Herra forseti. Mörg ár eru liðin síðan við byrjuðum að tala um hversu mikilvægt það sé að við náum árangri í loftslagsmálum. Það er löngu tímabært að við hættum að hugsa um þessi mál í afmörkuðum verkefnum. Við verðum einfaldlega að hugsa loftslagsmálin heildrænt. Annars verðum við endalaust með áætlaðan samdrátt upp á ímynduð 5% hér, 8% þar, einhver önnur annars staðar, sum markmið nást og önnur ekki og enginn hefur minnstu hugmynd um af hverju. Nú veit ég um nýlegt dæmi þar sem sveitarfélag útbjó loftslagsstefnu. Hún fjallaði eingöngu um rekstur þess. Þannig var hægt að fjarlægja mjög marga stóra þætti sem hafa gríðarleg áhrif á losun, bara af því að þeir tengjast rekstrinum ekki sem slíkum. Hér er líka mikilvægt að við séum með réttan samanburð. Það að nota eitt viðmiðunarár er dæmt til að mistakast þar sem sveiflan getur verið mikil og við þurfum að skoða þróun milli ára og fjarlægja út úr menginu þau ár sem engan veginn gefa rétta mynd af niðurstöðunni. Ef við leyfum okkur sífellt að nálgast verkefnið á eins þröngsýnan hátt og hægt er verða allt of margir blindir blettir og árangurinn verður eftir því. Með hverju árinu sem líður verður verkefnið stærra, erfiðara og sársaukafyllra. Því fyrr sem við grípum til aðgerða þar sem við raunverulega tökumst á við vandann, þeim mun betur mun okkur takast að ná tökum á honum. Hvernig sem á það er litið munu öll hér á landi horfa til Alþingis eftir leiðsögn og við þurfum að draga vagninn. Sá árangur sem næst byrjar hér.