Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

Störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að vekja athygli þingsins á því sem Bændablaðið vekur athygli á og það er nýundirrituð yfirlýsing um 700 vísindamanna til stuðnings kjöt- og búfjárrækt. Það var ekki að ástæðulausu að vísindamenn frá löndum víða um heim sáu ástæðu til að undirrita slíka sameiginlega yfirlýsingu því að við höfum heyrt mjög aukna umræðu um að kjötframleiðsla sé neikvæð af ýmsum ástæðum en þá sérstaklega bera menn fyrir sig umhverfismálin, loftslagsmálin. Á stórum leiðtogafundi í Dyflinni var þessi yfirlýsing samin og svo undirrituð, eins og ég sagði, af mörghundruð vísindamönnum um allan heim. Þar segir að mikilvægi kjöts í mataræði fólks, hlutverk þess í sjálfbæru umhverfi og menningarlegt gildi hafi verið þrjú meginstef þessa fundar og þessarar yfirlýsingar. En hér höfum við ríkisstjórn sem hefur nú í tvígang sent frá sér framtíðarsýn sína í aðdraganda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna þar sem dregnar eru upp sviðsmyndir þar sem nánast er gert ráð fyrir því að kjötframleiðsla leggist af á Íslandi, a.m.k. í þeim sviðsmyndum sem gefið er til kynna að séu bjartasta framtíðarsýnin. Ég held að reyndar sé gert ráð fyrir að einhverjar kýr fái að lifa áfram og eigi þá að borða þang en ekki gras, vera einhvers konar sækýr. En þetta er eitthvað sem er raunveruleg hætta á að geti raungerst, þ.e. að það verði jafnt og þétt grafið undan kjötframleiðslu hér á landi. Þó að menn kannist ekki við þessar yfirlýsingar, sem hafa reyndar ekki verið þýddar yfir á íslensku, þá er hættan sú að kerfið vinni í þessa átt jafnt og þétt (Forseti hringir.) eins og það heldur áfram að leggja borgarlínu eða byggja Landspítala á óhentugum stað o.s.frv., (Forseti hringir.) þannig að við þurfum að fylgjast með þessu, herra forseti.