Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:31]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Hér áðan var ég að byrja að fjalla um það hversu takmarkað aðgengi flóttafólks hefði verið að húsnæði í Grikklandi í því samhengi að íslensk stjórnvöld stunda það enn að vísa fólki burt, sem hefur hlotið samþykkta umsókn um alþjóðlega vernd á Grikklandi. Íslensk stjórnvöld vísa því fólki aftur til Grikklands án þess að mál þess hljóti efnismeðferð hér á landi þrátt fyrir að ýmis lönd í kringum okkur séu farin að endurskoða þá framkvæmd í ljósi þess að það samrýmist ekki mannréttindaskuldbindingum að senda fólk í þær aðstæður sem grísk stjórnvöld bjóða því upp á. Þetta er eitthvað sem mun ágerast ef það frumvarp sem við fjöllum um hér í dag verður samþykkt og gert að lögum. Vandinn við rökstuðning íslenskra stjórnvalda á því að halda uppteknum hætti er að þau benda alltaf á það að flóttafólk njóti sama réttar og heimamenn, sem má til sanns vegar færa ef við lítum bara á beran lagabókstafinn, en í framkvæmd er reyndin hins vegar allt önnur.

Varðandi að aðgengi að húsnæði t.d. þá kveða grísk lög á um jafnan rétt flóttafólks til félagslegs stuðnings og þar undir fellur húsnæði. En eins og kemur fram í skýrslu Rauða krossins um aðstæður flóttafólks í Grikklandi, sem var gerð í apríl 2022, þá er staðreyndin náttúrlega sú að flóttafólk stendur frammi fyrir erfiðum kerfislægum hindrunum sem innfæddir Grikkir lenda ekki í í sama mæli. Það eru náttúrlega ýmis vandkvæði sem hafa áhrif á aðgengi grískra ríkisborgara að húsnæði, hvað þá húsnæði á viðráðanlegu verði, en þær hindranir magnast síðan þegar um er að ræða fólk í þeirri stöðu sem flóttafólk er.

Staðreyndin er þess vegna sú að gífurlegur fjöldi flóttafólks hefst við á götum Grikklands, líka fólk sem hefur fengið samþykkta umsókn um alþjóðlega vernd. Verndin er sem sagt ekki meiri en svo að fólk undir þessum verndarvæng býr oft á götunni. Það rennur mörgum blóðið til skyldunnar þegar það horfir upp á þetta og sér fólk í þessari viðkvæmu stöðu búa á götunni, þannig að það eru ýmis alþjóðleg hjálparsamtök og frjáls félagasamtök, Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið sem stíga stundum inn í, bregðast við og reyna að grípa inn í þessar aðstæður. En það er bara plástur á eitthvað sem er kerfislægur viðvarandi vandi. Það er tímabundin lausn sem þarf að leysa á allt annan og varanlegri máta.

En eins og kemur fram í skýrslu Rauða krossins er heimilisleysi flóttafólks í Grikklandi viðvarandi vandi. Líkurnar á því eru yfirgnæfandi að flóttafólk sem er endursent til Grikklands, eins og íslensk stjórnvöld gera ósjaldan, muni verða heimilislaust eða búa við óviðunandi aðstæður. Þetta er allt á sömu bókina lært, forseti. Hér erum við að tala um viðkvæman og jaðarsettan hóp sem íslensk stjórnvöld vilja í orði kveðnu sýna mannúð en í þágu skilvirkninnar er þeim vísað í aðstæður eins og þessar þar sem mannréttindi eru fyrir borð borin. Og þetta á ekki bara halda áfram heldur á þetta að verða enn sterkari framkvæmd hjá íslenskum stjórnvöldum. Það er kannski ekki nema furða að stjórnarliðar fáist ekki til að kalla eftir óháðri úttekt á samræmi þessa frumvarps við mannréttindaskuldbindingar og stjórnarskrá vegna þess að ég held að þó að það væri bara þessi hluti, bara fólk sem hefur svokallaða vernd á Grikklandi, sem væri skoðaður þá kæmi það mat illa út, hvað þá ef allt frumvarpið væri rýnt.