Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Maður stoppar alltaf í miðri setningu hérna þegar ræðutíminn er svona stuttur, þó að ég myndi kannski ekkert endilega vilja hafa hann endalausan eins og var hér um árið. Ég væri nú örugglega komin upp í 12 tíma samt sem áður ef svo væri og gæti slegið einhver fleiri met, ekki að það sé sjálfstætt markmið. Markmiðið hér er eingöngu það að gera öllum þingheimi grein fyrir því sem hér stendur til að samþykkja.

Ég er í augnablikinu að tala um c-lið 8. gr. frumvarpsins sem gengur út á það að eyðileggja ákveðna tímafresti sem voru settir árið 2016. Fyrsta breytingin sem er lögð til, og er mjög fín og það er auðvelt að láta hana fara fram hjá sér, er sú að tímamörkum, sem í dag miðast frá umsókn að því að einstaklingur er fluttur úr landi, er breytt þannig að þau miðast við tímann frá umsókn þangað til kærunefnd útlendingamála hefur komist að niðurstöðu. Þá hefur stoðdeild ríkislögreglustjóra alla ævi viðkomandi til að flytja viðkomandi úr landi án þess að einstaklingurinn öðlist nokkurn rétt. Ég held að það kannski hreyfi mest við fólki að hugsa um barn í þessu samhengi og það er ekkert tilfinningaklám því að börn heyra þarna undir. Þetta á við um börn líka. Reyndar held ég að þessir tímafrestir hafi svolítið verið settir með börn í huga þó að reyndar hafi síðan komið upp mál þar sem tíminn var ekki liðinn og fólk var samt mjög reitt í samfélaginu af því að það átti að flytja börn úr landi sem voru jafnvel farin að tala íslensku. Þau eru ekkert lengi að því. Og hvað gerist þá? Jú, þá ýmist tekur þingið við sér og setur einhver bráðabirgðaákvæði til þess að koma akkúrat þeim börnum fyrir horn og kannski þremur, fjórum í viðbót, eða ráðherra með reglugerð setur einhverja bráðabirgðareglugerð til að koma akkúrat þeim börnum í skjól og kannski þrem, fjórum í viðbót. Ekki hefur enn þá farið svo að þetta hafi verið orðað skýrt í lögunum og eru flestir lögfræðingar sammála um að verði þetta frumvarp að lögum þá missi reglugerðin, sem kveður á um tíu mánaða frest í málum barna, lagastoð. Þannig að það er ýmislegt sem gerist til að skerða réttindi barna með því að samþykkja þetta frumvarp. Það er alveg skýrt. Þetta er það fyrsta.

Hér kemur fram að við þessa breytingu skuli einnig taka umsókn til efnismeðferðar hafi umsækjandi ekki fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu innan 12 mánaða. Í dag er það bara þannig að ef það er ekki búið að flytja þig innan 12 mánaða áttu rétt á áheyrn. Eins og ég sagði hefur verið bent á að þessir frestir séu reiknaðar með ólíkum hætti í málum þar sem er verið að vísa umsókn frá, málum sem tekin eru til efnismeðferðar, en það hefði verið lagt til að það viðmið sem er núna í þessum málum, sem sagt að miðað sé við flutning, verði látið eiga við um hitt líka, vegna þess að, eins og ég var að nefna þá skiptir það bara engu máli hvort einhver kærunefnd eða Útlendingastofnun eða lögregla eða hver það er sem er með pappírana barnsins á borðinu, barnið veit ekkert af því. Barnið heldur áfram að ganga í skóla, það heldur áfram að eignast vini og læra íslensku. Það skerðir því ekkert það áfall og þá réttindaskerðingu sem barnið verður fyrir hvaða stjórnvald það er sem er með málið í sínum höndum. Því skýtur það mjög skökku við að láta frestina miðast við einhvern punkt í málsmeðferðinni. Auðvitað á bara að miða við þann tíma sem barnið er á landinu. Á þetta hefur verið bent. Meiri hlutinn hér á þingi hefur ákveðið að fara í öfuga átt og skerða réttarvernd barna í þessum málum líka, til samræmis við hin efnismeðferðarmálin.

Þá er ég komin með fyrri hluta fyrstu setningarinnar í þessari málsgrein, c-lið 8. gr. Þá komum við að seinni hlutanum, sem er nú svo mikil langloka að ég held að það taki mig fimm mínútur bara að lesa það upp en það varðar lögfestingu á mati Útlendingastofnunar á því hvað teljast tafir á ábyrgð einstaklings, hlutir sem hafa ekki í framkvæmd verið taldir tafir á ábyrgð einstaklings og eru það ekki ef við skoðum það. Útlendingastofnun vill endilega að breyta því og hefur þess vegna óskaði eftir þessari lagabreytingu til að lögfesta sína ólögmætu framkvæmd. Ég mun fjalla um það nánar í næstu ræðu og óska eftir því við forseta að fá að fara aftur á mælendaskrá.