Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:03]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Staða fólks sem hefur fengið alþjóðlega vernd samþykkta í Grikklandi hefur verið umfjöllunarefni hér í síðustu ræðum, og að Rauði kross Íslands hafi ítrekað bent á, m.a. hér í þessari samantekt frá því í apríl 2022, að aðstæður flóttafólks í Grikklandi séu „heilt yfir mjög slæmar“. Skiptir þá engu hvort fólk hafi fengið umsókn um alþjóðlega vernd samþykkta eða sé enn í biðstöðu gagnvart því.

Af þessum sökum hafa ýmis ríki Evrópu endurskoðað þá stefnu sína að endursenda fólk til Grikklands. Þannig er t.d. hægt að benda á Þýskaland, en þar komst stjórnlagadómstóll að þeirri niðurstöðu að það samrýmdist ekki mannréttindaskuldbindingum að bjóða fólki upp á að vera sent aftur í gríska verndarkerfið þar sem ekki væri hægt að tryggja því helstu grunnnauðsynjar daglegs lífs. Íslensk stjórnvöld eru ekki jafn upptekin af mannréttindum þessa flóttafólks. Það endurspeglast í þeirri framkvæmd að oft og tíðum er fólki komið aftur til Grikklands án þess að mál þess hljóti efnislega meðferð. Þar nýta íslensk stjórnvöld sér, eða misnota jafnvel, heimild í samevrópsku regluverki þannig að frekar en að deila byrðum með Grikkjum þá veltum við þeim yfir á Grikki.

Í síðustu ræðu fór ég yfir hvernig aðgengi að heilbrigðiskerfi og húsnæði er, samkvæmt ströngum lagabókstaf, jafnt á milli flóttafólks og fólks með grískt ríkisfang en í reynd sé það alls ekki staðan. Mig langar að dvelja aðeins við það hvernig eins háttar til um aðgengi að atvinnu. Þannig er mælt fyrir um það í grískum lögum að flóttafólk hafi jafnan rétt á við gríska ríkisborgara að vinnumarkaðnum en Rauði krossinn bendir á að reyndin sé sú að aðgangur þess að vinnumarkaðnum sé nær ómögulegur. Flóttafólk verði fyrir mismunun í samfélaginu, þar eru menningarlegar ástæður kannski að hluta til orsakavaldur, en það skortir tungumálakennslu og aðstoð við að læra inn á grískt samfélag. Því á fólk erfiðara með að fóta sig á vinnumarkaði. Svo bendir Rauði krossinn á að í skýrslu mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins sé vakin athygli á að grísk stjórnvöld hafi ekki ráðist í neinar almennilegar aðgerðir til að brúa þetta og til að vinna í því að flóttafólk í landinu geti lagað sig að grísku samfélagi þó að tillögur þess efnis séu nú farnar að líta „dagsins ljós“, eins og það heitir í skýrslu Rauða krossins. Það er ekki hægt að hrósa grískum stjórnvöldum fyrir að hafa flýtt sér við þessa vinnu þar sem fjöldi flóttafólks í Grikklandi hefur verið mjög mikill allt frá árinu 2015, og nú er árið 2023. (Forseti hringir.) Loksins hillir undir einhverja stefnu til að hjálpa fólki að taka fullan þátt í samfélaginu en enn skortir rétt til atvinnu.