Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Okkur er tíðrætt um mannréttindi í þessari umræðu, m.a. vegna þess að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar er ekki tilbúinn til að láta vinna óháð mat á því hvort þetta frumvarp samrýmist skuldbindingum Íslands varðandi mannréttindi, hvort þetta frumvarp samrýmist stjórnarskrá. Það er full ástæða til. Það eru verulega íþyngjandi ákvæði sem þarf að skoða með hliðsjón af mannréttindaskuldbindingum, með hliðsjón af barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ýmsu öðru.

Ég er hér búinn að vera að fara yfir stöðu fólks á flótta sem er búið að fá umsókn um alþjóðlega vernd samþykkta í Grikklandi en leitar til Íslands og er oftast endursent án efnismeðferðar til baka til Grikklands þrátt fyrir að nánari skoðun á aðstæðum einstaklinganna myndi væntanlega leiða í ljós að þeim væri mun betur fyrir komið hér á Íslandi. Þrátt fyrir að þjónusta við fólk með samþykkta umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi sé kannski ekkert til að hrópa húrra fyrir þá er hún þó skömminni skárri en í Grikklandi.

Ég fór hér áðan yfir það hvernig í orði væru sum réttindi til staðar en svo fjarri því á borði. Þannig er t.d. með aðgengi að heilbrigðisþjónustu og aðgengi að húsnæði að hvort tveggja eru réttindi sem kveðið er á um í grískum lögum að séu jöfn á milli flóttafólks og grískra ríkisborgara en reyndin er sú að raunverulegt aðgengi flóttafólks að heilbrigðisþjónustu og húsnæði er miklum mun verra en grískra ríkisborgara af mörgum ástæðum.

Síðan var ég hér í síðustu ræðu að fjalla um takmarkað aðgengi sem flóttafólk býr við varðandi atvinnu. Það er kannski ágætt að rifja upp í því samhengi þann tæplega 70 manna hóp fólks sem hefur fengið endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd hér á landi, sem ekki er hægt að flytja úr landi, fólkið sem er innlyksa. Rauði krossinn bendir einmitt í annarri umsögn á að það skipti miklu máli að útvega því fólki bráðabirgða dvalar- og atvinnuleyfi til að það geti séð sér farborða. Þegar fólk er komið í varanlega dvöl, hvort sem það er innlyksa eins og fólkið hér á Íslandi í umborinni dvöl eða í gríska verndarkerfinu, þá er mjög mikilvægt, bæði upp á að bæta líf fólksins en líka til að létta undir með kerfinu, að gera fólki kleift að sjá meira um sig sjálft.

Rauði krossinn bendir á varðandi atvinnuréttindin að þrátt fyrir að grísk lög kveði enn og aftur á um jafnan rétt flóttafólks og grískra ríkisborgara á vinnumarkaðnum sé reyndin allt önnur og telur Rauði krossinn raunar að verndarhöfum sem vísað er úr landi bíði að öllum líkindum bara örbirgð í Grikklandi þar sem er almennt mikið atvinnuleysi, engin aðstoð frá stjórnvöldum og síðan koma fordómar og tungumálahindranir í veg fyrir atvinnuþátttöku og þar með möguleika til að framfleyta sér. Þannig að úr verður vítahringur þar sem fólk hefur það verr og kerfinu gengur verr að sjá því fyrir mannsæmandi þjónustu.

Mig langar í þessu samhengi að rifja upp orð hv. þm. Jódísar Skúladóttur í Silfrinu fyrir rúmri viku þar sem hún talaði um þennan hóp og sagði: Færðu húsnæði, heilbrigðisþjónustu, atvinnutækifæri? Það er ekkert víst. En það er líka fullt af innfæddum Grikkjum sem hafa ekki aðgang að því.

Mér finnst þetta kristalla eiginlega betur en margt annað sem fram hefur komið í þessari umræðu hversu langt stjórnarliðar eru komnir frá nokkru sem heitir eðlileg tilfinning fyrir mannréttindum (Forseti hringir.) eða skynsemi þegar kemur að því að sjá stöðu fólks í raunsönnu ljósi (Forseti hringir.) eða bara færni í að lesa texta því að þetta stendur allt hérna í skýrslum sem lagðar voru fyrir allsherjar- og menntamálanefnd.

Þetta líka útskýrir af hverju ekki hefur verið vilji hjá meiri hlutanum leita sjálfstæðs álits á samræmi við stjórnarskrá.