Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Herra forseti. Áhorfendur bíða hér æsispenntir eftir áframhaldandi umfjöllun minni um dóm héraðsdóms í máli Husseins Husseins sem féll fyrir stuttu síðan. Í dómnum þá, merkilegt nokk, var ekki ágreiningur um hvort það sé í lagi að senda fólk með viðlíka þjónustuþarfir á brotajárnshaugana í Grikklandi eða ekki, heldur hvort umsækjandi, Hussein, geti talist hafa tafið málið sitt sjálfur. Hann var búinn að vera hérna í tvö ár eftir að hafa sótt um án þess að vera fluttur úr landi. Samkvæmt lögum á fólk rétt á efnismeðferð eftir 12 mánuði nema það hafi tafið mál sitt sjálft. Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála komust að þeirri niðurstöðu að hann hefði tafið mál sitt sjálfur en héraðsdómur var ekki sammála og ég er að útskýra hvers vegna. Vegna þess að þetta hefur beina tengingu inn í c-lið 8. gr. frumvarpsins sem við erum að ræða hér þar sem er verið að reyna að lögfesta allar þær tafir sem almennt eru ekki taldar á ábyrgð umsækjenda en Útlendingastofnun vill endilega að verði bara samkvæmt lögum taldar á ábyrgð umsækjenda þó að það sé hvorki sanngjarnt né eðlilegt. Með leyfi forseta:

„Stefnandi krafðist þess með bréfi til kærunefndar útlendingamála 9. desember 2021 að mál hans yrði endur upptekið með vísan til þess að þá var meira en eitt ár liðið frá því að stjórnvöldum barst fyrst umsókn hans um alþjóðlega vernd. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála 3. febrúar 2022 var synjað um nefnda endurupptöku.“

Ég ætla aðeins að hoppa hérna yfir því að ég las þetta áðan en ég ætlaði bara rétt að rifja upp dagsetningarnar sem við erum að vinna með. 8. desember 2020 sækir Hussein um vernd hér á landi. 9. desember 2021 óskar hann eftir endurupptöku á þeim forsendum að 12 mánuðir séu liðnir. Þá held ég áfram, með leyfi forseta:

„Eins og rakið er hér að framan mun lögregla hafa hitt stefnanda 19. nóvember 2021 á dvalarstað hans og birt honum tilkynningu um að flytja ætti hann til Grikklands. Um það hvað stefnanda og lögreglu fór á milli við þetta tilefni er margt á huldu og takmörkuð sönnunarfærsla fór fram um það fyrir dómnum. Þannig liggur ekki fyrir hvort stefnandi hélt því ranglega fram við lögreglu að hann hefði verið bólusettur gegn Covid-19 eins og byggt er á af hálfu kærunefndar eða hvort hann upplýsti lögreglu um að hann hefði sýkst af sjúkdómnum. Því er að mati dómsins með öllu óljóst hvort stefnandi reyndi á einhvern hátt að villa um fyrir yfirvöldum til að tefja fyrir brottflutningi sínum þótt það hafi á engan hátt verið útilokað. Verður því ekki fallist á að kærunefnd útlendingamála hafi verið rétt að synja endurupptökubeiðni stefnanda 3. febrúar 2022 á þeim grundvelli sem hún gerði.“

Og hér bið ég hlustendur um að hlusta vel vegna þess að jafnvel þó að hann teldist hafa valdið töfum með því að segja ósatt til um hvort hann væri bólusettur eða ekki bólusettur eða búinn að fá sýkingu eða ekki sýkingu, sem getur mjög auðveldlega skolast til í samskiptum fólks, sérstaklega þegar tungumálaörðugleikar eru fyrir hendi, jafnvel þó að það verði litið svo á að hann hafi beinlínis logið blákalt að lögreglunni og tafið málsmeðferðina með þeim hætti, þá segir, með leyfi forseta:

„Þá er einnig til þess að líta að 19. nóvember 2021 voru liðnir ellefu og hálfur mánuður frá því að stefnandi sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi. Jafnvel þó svo að fallist væri á að stefnandi hefði með einhverjum ráðstöfunum sínum eða villandi upplýsingagjöf valdið töfum á máli sínu er augljóst að þær tafir voru minniháttar og óverulegur hluti málsmeðferðartímans. Þá verður einnig að árétta að það að umsækjandi um alþjóðlega vernd valdi töfum á málsmeðferð sem leiði til þess að fallast verði á að lögákveðinn hámarksmálsmeðferðartími stjórnvalda, í skilningi 2. mgr. 36. gr. útlendingalaga, framlengist veldur ekki því að nýr tólf mánaða frestur stofnist eða að hámarkstími málsmeðferðar sé eftir það ótakmarkaður. Slík túlkun myndi hvorki samræmast málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga eða almennum sjónarmiðum um túlkun reglna um lögmæltan málsmeðferðartíma. Þá er engan fót fyrir slíkri skýringu að finna í lögskýringagögnum. Þannig virðist augljóst að jafnvel þótt fallist væri á að málsmeðferðartími í máli stefnanda hefði átt að framlengjast fram yfir 8. desember 2021, sem dómurinn fellst ekki á, hefði sú framlenging fyrir löngu verið liðin er úrskurður kærunefndar útlendingamála var upp kveðinn 3. febrúar 2022, hvað þá þegar málsmeðferðartíma í máli stefnanda loksins lauk þann 3. nóvember 2022.“

Ég geri hlé á tilvitnun þótt ég haldi þetta sé orðið tiltölulega skýrt fyrir hlustendur og óska eftir því við forseta að fá að fara aftur á mælendaskrá.