Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:51]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Ég hef verið að fara í fyrri ræðum mínum yfir umsögn Rauða krossins á Íslandi um þetta lagafrumvarp. Ég var að tala um 4. gr. síðast þegar ég var í ræðustól og átti eftir að segja eina setningu um þessa grein sem lagt er til að verði sett á og vitna ég hér, með leyfi forseta, í umsögnina: „Með vísan til alls framangreinds“ — sem sagt um 4. gr. þessa lagafrumvarps — „leggst Rauði krossinn alfarið gegn setningu ákvæðisins.“ Ég reifaði ástæður þess mjög ítarlega í síðustu ræðu, ef ekki tveimur síðustu.

Því næst ætla ég að fara í gegnum 6. gr. lagafrumvarpsins og vitna í umsögn Rauða krossins:

„Hér er lögð til sú grundvallarbreyting á réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd að réttur til þjónustu verður felldur niður 30 dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar í máli þeirra. Hingað til hafa umsækjendur notið þjónustu þar til þeir yfirgefa landið ef frá eru taldir umsækjendur frá EESríkjum en þeir hafa ríkan rétt til að setjast hér að og litið hefur verið svo á að þeir eigi að geta nýtt sér slíkar heimildir.

Þau réttindi sem fjallað er um í 33. gr. útlendingalaga eru grundvallarréttindi og mikilvægt að líta til þess hverjar afleiðingar og áhrif umræddrar tillögu yrðu, verði hún að lögum. Áhrif tillögunnar á stöðu, velferð og mannvirðingu umsækjenda um alþjóðlega vernd eru nokkuð augljós. Réttur þeirra til framfærslu, húsnæðis og heilbrigðisþjónustu fellur niður og því er fyrirséð að þau sem ekki yfirgefa landið innan 30 daga verða heimilislaus án framfærslu. Ekki má heldur draga úr mikilvægi þess að fólk njóti grunnheilbrigðisþjónustu á meðan það dvelur hér á landi.

Í 6. gr. frumvarpsins segir að ekki sé heimilt að fella niður réttindi alvarlega veikra einstaklinga og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir. Í athugasemdum við frumvarpsgreinina segir að með alvarlegum veikindum sé átt við þá einstaklinga sem ekki séu fyllilega færir um að sjá um sig sjálfir, hvort sem er vegna andlegra eða líkamlegra veikinda, og velferð þeirra yrði alvarlega ógnað ef réttindi þeirra yrðu niður felld. Með fötluðum einstaklingi með langvarandi stuðningsþarfir sé átt við þá sem hafi þörf fyrir þjónustu og/eða stuðning sem sé meiri eða sérhæfðari en svo að þörfinni verði fullnægt innan almennrar þjónustu. Rauði krossinn hefur um margra ára skeið gert margháttaðar og alvarlegar athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á því …“ — Ég ætla bara halda áfram með þessa setningu næst og bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.