Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:28]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegur forseti. Ég er enn þá alveg sannfærður um að við getum ekki hafa verið að lesa sömu textana og ég er búinn að vera að kynna mér og lesa upp. Ég ætla að halda áfram að lesa upp gögn og skjöl málsins og ætla að grípa niður í nefndarálit 3. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar, með leyfi forseta:

„Þriðji minni hluti leggst alfarið gegn því að frumvarp þetta verði samþykkt. Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu skerða réttaröryggi fólks á flótta með því að eyðileggja mikilvægar réttarbætur sem gerðar voru í þverpólitískri sátt með núgildandi lögum, nr. 80/2016, ásamt því að innleiða nýjar reglur sem bent hefur verið á að gætu brotið gegn stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og alþjóðlegum skuldbindingum um réttindi flóttafólks og réttindi barna. Þvert á yfirlýst markmið með frumvarpinu munu breytingarnar þar að auki leiða til skertrar skilvirkni í málsmeðferð með því að afnema hvata fyrir stjórnvöld að ljúka málum innan tiltekins tíma, leggja á stjórnvöld að taka erfiðar ákvarðanir um niðurfellingu þjónustu og búa til flóknar sérreglur og undantekningar á regluverki sem sátt hefur ríkt um. Munu breytingarnar lengja málsmeðferðartíma margra umsókna og leiða þannig af sér aukinn kostnað við málsmeðferð og þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þá er heldur ekki að sjá að breytingarnar auki samræmi íslenskrar löggjafar við löggjöf og framkvæmd á Norðurlöndum eða í öðrum Evrópuríkjum, líkt og stefnt er að samkvæmt greinargerð með frumvarpinu. Í ofanálag eru tillögurnar hroðvirknislega unnar og lögfræðileg útfærsla ómarkviss og óskýr, sem ætla má að leiði til enn frekari tafa í málsmeðferð með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð.

Raunverulegt tilefni flestra þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu eru einstök mál þar sem framkvæmd Útlendingastofnunar hefur verið úrskurðuð eða dæmd ólögmæt og málum vísað aftur til meðferðar hjá stofnuninni. Rétta lausnin í slíkum tilvikum er að stofnunin láti af hinni ólögmætu framkvæmd en ekki að Alþingi skjóti undir hana lagastoð sem óvíst er hvort standist stjórnarskrána og þær alþjóðlegu mannréttindaskuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist.

Verður nú einungis vikið að nokkrum þeim fjölmörgu atriðum sem að mati 3. minni hluta gera það að verkum að óhjákvæmilegt sé að hafna frumvarpinu með öllu.

Við umfjöllun málsins í allsherjar- og menntamálanefnd komu ítrekað fram athugasemdir, bæði frá umsagnaraðilum og í almennri fræðilegri umfjöllun um frumvarpið, um að ekki hefði farið fram úttekt á því hvort frumvarpið stæðist ákvæði stjórnarskrárinnar og þeirra alþjóðlegu mannréttindaskuldbindinga sem Ísland er aðili að. Í greinargerð með frumvarpinu er einfaldlega tekið fram að frumvarpið gefi ekki tilefni til að samræmi þess við stjórnarskrána sé sérstaklega metið. Þriðji minni hluti tekur undir með umsagnaraðilum og gerir alvarlega athugasemd við þessi vinnubrögð.

Í þessu samhengi er t.d. bent á það í umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands (MHÍ) að nýlega hafi Alþingi fengið áminningu af hálfu Hæstaréttar Íslands í dómi réttarins í máli nr. 20/2022 sem féll 26. október 2022. Í dóminum segir: „Við breytingar á [...] lögum nr. 50/2015 sinnti löggjafinn því ekki stjórnskipulegri skyldu sinni til að meta hvort lagasetning rúmaðist innan þeirra marka sem stjórnarskráin setur.“ Þá vísar dómurinn til almennra athugasemda með frumvarpi því sem varð að lögunum sem um ræðir, þar sem segir að ekki hafi þótt tilefni til að skoðað yrði sérstaklega samræmi við stjórnarskrána eða alþjóðlegar skuldbindingar.“

— Ég á töluvert eftir og óska því eftir að fara aftur á mælendaskrá.