Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:55]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Í síðustu ræðu minni vék ég að frekar almennum hlutum hvað varðar þetta frumvarp en ég ætlaði svo sem fara í gegnum 7. og 8. gr. efnislega. Ég einhvern veginn finn mig knúna til að taka aftur umræðuna um 2. og 6. gr. og bera þær saman við málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar en nú ætla ég að fara í gegnum 7. og 8. gr.

Áður en ég fer ítarlega út í þær greinar og les upp umsagnir frá umsagnaraðilum, sem ber að taka mark á auðvitað, þá langar mig að árétta eitt. Mér hafa borist skilaboð og hef líka séð umræðuna sem er í gangi hér á þinginu undir þessum dagskrárlið varðandi þetta útlendingafrumvarp. Sumum þykir það auðvitað ámælisvert að hér sé manneskja af erlendum uppruna að taka þátt í langri umræðu varðandi frumvarp sem hefur áhrif á fólk af erlendum uppruna sem hingað leitar í neyð. En ég vil árétta að svo sé ekki, að ég sé ekki að gera þetta út af því að ég sé af öðrum uppruna heldur en íslenskum, af því að ég er fyrst og fremst íslenskur ríkisborgari og fæddist hér. Þetta lagafrumvarp hefur þannig séð engin áhrif á mig persónulega og ég er ekki að taka þessu persónulega heldur þykir mér rosalega mikilvægt að lýðræðið hér á landi sé varðveitt og réttarríkið sé varðveitt með því að sjá til þess að lögin sem við erum að samþykkja hér í gegnum þingið, sem allir 63 þingmenn eru virkir aðilar að, séu í réttu formi og séu í samræmi við núverandi lög og séu í samræmi við stjórnarskrá og mannréttindaskuldbindingar sem Ísland er aðili að. Þetta hefur ekkert að gera með það að þetta vegi að rétti fólks sem er mögulega af sama hópi og ég. Það er ekki málið. Auðvitað er bara bagalegt að þetta vegi að réttindum flóttafólks og ég tala gegn því en ég er ekki að tala gegn því út af því hvaðan ég er. En mér líður eins og ég sé bara búin að taka það skýrt fram og vil ég víkja að umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar varðandi 7. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa gerir athugasemdir við þessa breytingu enda setur greinin umsækjendum um alþjóðlega vernd þröngar skorður varðandi möguleika á að fá endurtekna umsókn tekna til skoðunar. Í greininni er tekið fram að ekki skuli taka mál umsækjanda fyrir á nýjan leik heldur einungis horft til þess sem leiðir af þeim nýju upplýsingum eða gögnum sem lögð hafa verið fram. Þá er gert ráð fyrir að endurtekinni umsókn skuli vísað frá ef umsækjandi er ekki á landinu. Þessi þröngu skilyrði eru alvarleg í ljósi þess að til stendur að ný málsmeðferð endurtekinna umsókna komi í stað endurupptöku skv. 24. gr. stjórnsýslulaga. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa telur þessa takmörkun fela í sér óeðlilega réttarskerðingu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Endurupptaka stjórnsýslumáls felur í sér mikilvægt réttaröryggi fyrir aðila máls, t.d. ef túlkun stjórnvalds á atvikum máls er röng eða stjórnvald hefur skort upplýsingar eða gögn sem hefðu haft áhrif á niðurstöðu málsins. Endurupptaka stjórnsýslumáls í skilningi 24. gr. stjórnsýslulaga felur í sér að mál er tekið til nýrrar umfjöllunar þar sem grunur leikur á að ekki hafi verið staðið rétt að ákvörðun í málinu eða ástæða þykir til að taka nýja ákvörðun. Því er ekki um að ræða nýtt stjórnsýslumál heldur er eldra mál tekið til nýrrar meðferðar. Hlýtur það að fara gegn tilgangi stjórnsýslulaga ef sérlög sem fela í sér vægari kröfur til stjórnvalda geta vikið til hliðar þeim réttindum sem stjórnsýslulögin eiga að tryggja.“

Virðulegi forseti. Ég held að það sé fullt tilefni til þess að taka þessa umsögn og þessar athugasemdir til ítarlegrar skoðunar, enda er þetta ekki eini umsagnaraðilinn sem gerir athugasemd við 7. gr. frumvarpsins. Eins og mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa segir þá er verið að setja þröngar skorður. Það er verið að setja þröngar skorður varðandi möguleika á að fá endurtekna umsókn tekna til skoðunar og eins og ég hef oft vikið að eru nú þegar í gildi lög sem taka vel á þessu skoðunarmáli og tel ég að það þurfi svo sem ekkert að stuðla að neinni breytingu þegar kemur að þessu lagaákvæði. En, virðulegi forseti, ég óska eftir að vera sett aftur á mælendaskrá.