153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég hef verið að fara yfir dómaþróun með tilliti til þess að mannréttindasáttmáli Evrópu var fullgiltur þangað til hann var lögfestur og áhrif hans á dóma á Íslandi, með leyfi forseta:

„Í dómi Hæstaréttar, sem var kveðinn upp 6. febrúar 1992, var leyst úr sakamáli á hendur manni sem var ekki fær um að tjá sig á íslensku og hafði því notið aðstoðar dómtúlks við meðferð málsins. Samkvæmt reglum þágildandi laga um meðferð opinberra mála, nr. 74/1974, taldist kostnaður af störfum dómtúlks til sakarkostnaðar í máli og varð hann þannig lagður með öðrum sakarkostnaði á ákærða ef sakfelling átti sér stað. Í dómi Hæstaréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu, en tekið var fram að skýra yrði ákvæði laga nr. 74/1974 til samræmis við e-lið 3. mgr. 6. gr. samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis og leggja þannig kostnað af störfum dómtúlks í málinu á ríkissjóð, en sakarkostnaður var að öðru leyti lagður á ákærða.“

Annar dómur, með leyfi forseta:

„Í dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 5. mars 1992, var leyst úr kröfum ákæruvaldsins um refsingu á hendur manni fyrir ummæli í blaðagrein um opinberan starfsmann sem voru talin varða við ákvæði 108. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Í dóminum var fjallað almennt um skýringu á þessu ákvæði og tekið fram að í þeim efnum yrði að hafa hliðsjón af reglum um prentfrelsi í 72. gr. stjórnarskrárinnar. Segir síðan í dómi Hæstaréttar: „Þessi lagaákvæði bæði ber og að skýra með tilliti til þeirra skuldbindinga um vernd æru, persónu- og tjáningarfrelsis í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem íslenska ríkið hefur fullgilt. Er þar að geta mannréttindasáttmála Evrópu, sem birtur var með auglýsingu nr. 11/1954, og Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem gerður var á vegum Sameinuðu þjóðanna og birtur með auglýsingu nr. 10/1979.

Af þessum dómum má ráða að Hæstiréttur hefur í mjög auknum mæli tekið tillit til ákvæða mannréttindasáttmála Evrópu við úrlausn mála á síðustu árum. Í tveimur fyrstnefndu dómunum víkur hann algerlega frá fyrri skýringum, sem hafði verið fylgt í áratugi, á settum lagareglum um vanhæfi dómara til að fara með mál. Var þetta gert með tilliti til ákvæða 6. gr. samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis og breytt þannig í raun inntaki reglnanna. Í framangreindum dómi um greiðslu kostnaðar af störfum dómtúlks víkur Hæstiréttur í raun til hliðar beinum fyrirmælum í þágildandi lögum um meðferð opinberra mála þar sem var mælt fortakslaust fyrir um að sá kostnaður teldist til sakarkostnaðar og félli þar með eftir málsúrslitum á ákærða. Niðurstaða dómsins studdist við 6. gr. samningsins sem mælir meðal annars fyrir um skýlausan rétt sakaðs manns til að njóta sér að kostnaðarlausu aðstoðar dómtúlks. Í síðastnefnda dóminum tekur Hæstiréttur beinlínis fram að skýra verði ákvæði settra laga og stjórnarskrárinnar um æruvernd og prentfrelsi með tilliti til reglna mannréttindasáttmálans. Þannig er ljóst að Hæstiréttur hefur ekki aðeins tekið upp ákveðnari stefnu um að skýra landsrétt til samræmis við þjóðréttarskuldbindingar ríkisins samkvæmt mannréttindasáttmálanum, jafnvel þótt með því sé horfið frá langvarandi dómvenju um skýringu á settum lagareglum, heldur hefur verið gengið lengra og talið fært að víkja í raun til hliðar settri lagareglu sem samrýmist ekki ákvæðum sáttmálans. Með þessu hafa verið gefin fordæmi um rúmar heimildir dómstóla til að laga landsrétt að þjóðréttarskuldbindingum ríkisins samkvæmt mannréttindasáttmálanum. Fordæmin ganga stundum mun lengra en fræðikenningar um slíka samræmingarskýringu ráðgera almennt. Í þessu ljósi hefur þeirri skoðun verið hreyft hvort dómaframkvæmdin hafi í reynd byggt á því í þessum tilvikum að mannréttindasáttmálinn væri orðinn hluti af landsrétti. Um það skal ekki fjölyrt hér frekar, en vissulega bera sumir þessara dóma vott um tilhneigingu til að færa að minnsta kosti ákvæði sáttmálans með óbeinum hætti inn í landsrétt með rúmri beitingu samræmingarskýringar á lögum.“

Ég bið forseta vinsamlegast um að setja mig aftur á mælendaskrá.