Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:08]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Mér er það algerlega óskiljanlegt hvernig við getum verið að tala um sama frumvarpið og sama dagskrármálið í ljósi þess hversu mikið ber í milli í upplifun hv. þingmanna á málinu. Því hef ég verið að fara yfir ýmis gögn og skjöl, framlagt efni um þetta mál, þannig að við getum tryggt að við séum að tala um sama hlutinn. Ég hef verið að gera nefndaráliti 3. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar skil í fyrri ræðum og með leyfi forseta langar mig að halda áfram þar sem frá var horfið.

„Í c-lið 8. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 2. mgr. 36. gr. núgildandi laga, nr. 80/2016. Kveður ákvæðið í núgildandi mynd á um að þrátt fyrir að heimilt sé að synja um efnismeðferð umsóknar á grundvelli 1. mgr. skuli mál tekið til efnismeðferðar hér á landi þegar 12 mánuðir eru liðnir frá umsókn, nema tafir á afgreiðslu umsóknarinnar séu á ábyrgð umsækjanda sjálfs. Á þeim átta árum sem liðin eru frá gildistöku laganna hefur mótast nokkuð skýr túlkun á því hvers konar tafir geta talist á ábyrgð umsækjanda sjálfs og veldur ákvæðið því ekki teljandi vandkvæðum í framkvæmd, að öðru leyti en því að Útlendingastofnun hefur í þó nokkrum tilfellum verið gerð afturreka með það mat sitt.

Eitt helsta markmið þeirra breytinga sem gerðar voru með lögum nr. 80/2016 var að stytta málsmeðferðartíma, m.a. með því að búa til hvata í kerfinu fyrir stjórnvöld til að tryggja að málsmeðferðartími færi ekki fram úr hófi og spara þannig m.a. kostnað við uppihald umsækjenda um alþjóðlega vernd. Verði frumvarp þetta að lögum eru hvatar þessir eyðilagðir og verður í raun enginn þrýstingur eftir í lögunum á stjórnvöld að ljúka meðferð mála innan tiltekins tíma. Munu breytingarnar þannig fjölga umtalsvert einstaklingum, þar á meðal börnum, sem dvelja hér árum saman án þess að fá niðurstöðu í mál sitt. Má gera ráð fyrir að kostnaður við bæði málsmeðferð og uppihald umsækjenda um alþjóðlega vernd muni með því aukast til muna. Yrði það að mati 3. minni hluta mikil afturför, auk þess sem það gengur gegn yfirlýstum markmiðum frumvarpsins um að auka skilvirkni og gæði innan stjórnsýslu og tryggja hagræðingu við nýtingu fjármagns.

Breytingar þessar á ákvæðum 2. mgr. 36. gr. núgildandi laga fela nánar tiltekið í sér upptalningu á hinum ýmsu þáttum sem umsækjandi hefur jafnvel enga stjórn á, sem geta valdið því að tímaviðmið ákvæðisins eigi ekki lengur við og umsækjandi eigi ekki rétt á efnismeðferð umsóknar sinnar þrátt fyrir að málsmeðferðin fari umfram þá 12 mánuði sem þar eru tilgreindir. Er hér um að ræða margvíslegar athafnir ýmissa aðila í nærumhverfi umsækjanda, svo sem maka eða sambúðarmaka, foreldris, eða einhvers annars sem kemur fyrir hönd umsækjanda, sem „eigi þátt“ í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka. Við mat á því hvort viðkomandi einstaklingur hafi borið ábyrgð á töfum á afgreiðslu máls umsækjanda skuli m.a. litið til þess hvort viðkomandi hafi dvalist á ókunnum stað um tíma, framvísað fölsuðum skjölum eða gefið misvísandi upplýsingar um auðkenni sitt, ekki mætt í boðað viðtal eða læknisskoðun eða „að öðru leyti ekki sýnt samstarfsvilja við meðferð, úrlausn eða framkvæmd máls“. Teljist umsækjandi á einhverjum tímapunkti frá upphafi málsmeðferðar hafa „tafið mál sitt“ í skilningi ákvæðisins á hann ekki rétt á efnismeðferð þrátt fyrir að málsmeðferð dragist úr hófi, jafnvel af allt öðrum ástæðum, svo sem vegna álags hjá stjórnvöldum eða annarra þátta sem umsækjandi hefur enga stjórn á.“

— Nú mun ég ekki ná að klára þessa yfirferð og óska því eftir að fara aftur á mælendaskrá.