Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:24]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Staðreyndin er sú að hér er ræðutími svo afskaplega knappur að við náum engan veginn að gera gögnum málsins nokkur skil á þeim stutta tíma sem er í boði. En við verðum þá bara að halda áfram og gera okkar besta til að koma þessu frá okkur með skilmerkilegum hætti. Langar mig því að halda áfram að gera nefndaráliti 3. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar skil, með leyfi forseta:

„Teljist umsækjandi á einhverjum tímapunkti frá upphafi málsmeðferðar hafa „tafið mál sitt“ í skilningi ákvæðisins á hann ekki rétt á efnismeðferð þrátt fyrir að málsmeðferð dragist úr hófi, jafnvel af allt öðrum ástæðum, svo sem vegna álags hjá stjórnvöldum eða annarra þátta sem umsækjandi hefur enga stjórn á. Er hér um að ræða óljós og ósanngjörn viðmið og ekki við öðru að búast en þau verði flókin og þunglamaleg í framkvæmd, sem kallar á frekari tafir á málsmeðferð þar sem þær munu án nokkurs vafa koma til kasta kærunefndar í flestum tilvikum, ef ekki öllum.

Í umsögnum Barnaheilla og UNICEF um frumvarpið var sérstaklega vikið að þessum þætti frumvarpsins út frá réttindum barna. Áréttuðu umsagnaraðilar mikilvægi þess að öll mál sem varða börn skuli meta með hagsmuni barnsins að leiðarljósi og að ákvörðun skuli tekin á grundvelli þess sem talið er barninu fyrir bestu að loknu mati. Í umsögn Barnaheilla kemur fram að í ljósi þessa sé með öllu ótækt að búa svo um hnútana að tafir sem rekja megi til athafna annarra geti komið niður á rétti barns til efnislegrar meðferðar umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd. Lýsti UNICEF því sömuleiðis yfir að það stríði gegn bæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskum lögum að börn séu látin líða fyrir athafnir annarra. Þrátt fyrir alvarlegar aðfinnslur þessara aðila við frumvarpið hefur meiri hlutinn ekki séð tilefni til þess að bregðast við þeim með breytingartillögum eða öðrum hætti og er ekki einu orði á þessar aðfinnslur minnst í nefndaráliti meiri hlutans. Að mati 3. minni hluta eru þessi vinnubrögð ósæmandi með öllu.

Afnám heimildar til endurupptöku máls — 3. og 7. gr. Nái frumvarpið fram að ganga verður núgildandi réttur fólks til að fá mál sitt endurupptekið ef ný gögn eða upplýsingar koma fram í málinu afnuminn, sbr. 3. og 7. gr. frumvarpsins. Réttur einstaklings til endurupptöku máls vegna nýrra gagna eða breyttra forsendna er nú þegar nokkuð þröngur en skv. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný, eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt honum, ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Með frumvarpinu er lagt til að þessi grundvallarréttur einstaklings til að fá mál sitt endurupptekið hjá stjórnvöldum vegna tilkomu nýrra gagna eða upplýsinga, eða vegna breyttra forsendna, verði afnuminn. Við meðferð málsins í allsherjar- og menntamálanefnd kom fram að engar sambærilegar sérreglur þekkist á öðrum sviðum stjórnsýsluréttarins. Þessar almennu reglur um rétt fólks til endurupptöku máls hafa verið ítarlega útfærðar í fræðiskrifum og í framkvæmd íslenskra stjórnvalda allt frá gildistöku stjórnsýslulaga og að mati 3. minni hluta hafa engin haldbær rök verið færð fyrir því að þessi grundvallarregla stjórnsýsluréttarins eigi ekki að gilda í málum er varða alþjóðlega vernd, svo sem lagt er til í frumvarpinu.“

Nú er aftur svo komið, virðulegur forseti, að tími minn er á þrotum og ég neyðist því til að óska þess eindregið að fá að fara aftur á mælendaskrá.