Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég held hérna áfram umfjöllun um greinargerð með frumvarpi til laga um mannréttindasáttmála Evrópu en mannréttindasáttmálinn skiptir náttúrlega miklu máli í þessu máli um útlendinga þar sem ábendingar umsagnaraðila sýna fram á að það þarf einmitt að huga að mannréttindasáttmálanum varðandi ýmsar þær skerðingar á réttindum fólks sem lagðar eru til í frumvarpinu. Ég tel nauðsynlegt, bara miðað við hvernig fólki finnst það einhvern veginn ekki alvarlegt, að rifja upp hvaðan þessi samningur er að koma og af hverju hann er mikilvægur þannig að ég hef verið að lesa upp úr greinargerðinni sem fer yfir söguna af því hvernig mannréttindasáttmáli Evrópu var lögleiddur á Íslandi og hvaða áhrif það hefur haft á t.d. dóma á Íslandi. Ég er kominn í kafla um kærur á hendur íslenska ríkinu um brot á ákvæðum mannréttindasáttmálans, en þetta er sem sagt árið 1992 og staðan eins og hún var þá, með leyfi forseta.

„Kæra hefur aldrei verið borin fram á hendur íslenska ríkinu um brot á ákvæðum mannréttindasáttmálans af öðru aðildarríki að honum. Kærur einstaklinga á hendur Íslandi til mannréttindanefndar Evrópu, sem hafa verið skráðar þar eftir áðurnefndum verklagsreglum hennar, eru á hinn bóginn orðnar 33 talsins frá því nefndin tók til starfa og hafði nefndin tekið afstöðu til 32 þeirra í byrjun árs 1993.“ — Staðan þá, miðað við það — „Í 28 tilvikum komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kæran væri ekki tæk til frekari meðferðar og vísaði henni þannig á bug. Í grófum dráttum voru kæruefnin í þessum tilvikum eftirfarandi:

Í einu tilviki að reglur um stóreignaskatt í lögum nr. 44/1957 fælu í sér brot á friðhelgi eignarréttarins skv. 1. gr. samningsviðauka nr. 1.

Í einu tilviki að brotið hafi verið gegn ákvæðum 9., 10. og 13. gr. samningsins með því að kærandinn ætti þess ekki kost að koma fram ógildingu á skírnarsáttmála sínum.

Í tveimur tilvikum að handtaka manns og eftirfarandi meðferð á sakamáli gegn honum hafi meðal annars verið í andstöðu við ákvæði 3., 5. og 6. gr. samningsins, en sami maður setti tvívegis fram kæru af sama tilefni.

Í fimmtán tilvikum að bann við hundahaldi í þéttbýli hafi verið brot á friðhelgi einkalífs, fjölskyldu og heimilis samkvæmt ákvæðum 8. gr. samningsins.

Í einu tilviki að veiting leyfis til byggingar á nágrannalóð væri brot á friðhelgi eignarréttarins skv. l. gr. samningsviðauka nr. 1, svo og að dráttur á meðferð dómsmáls í tengslum við kæruefnið hafi verið í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 6. gr. samningsins.

Í einu tilviki að synjun um að opinber skipti færu fram á dánarbúi fæli í sér skerðingu á erfðarétti og þar með brot á friðhelgi eignarréttarins skv. 1. gr. samningsviðauka nr. 1.

Í einu tilviki að reglur um kosningar til Alþingis, sem leiddu af sér misvægi atkvæða milli kjördæma, væru andstæðar ákvæðum 3. gr. samningsviðauka nr. l.

Í tveimur tilvikum að brottvikning eigenda búðar úr henni á grundvelli heimilda í lögum um fjölbýlishús, nr. 59/1976, væri brot á reglum um friðhelgi einkalífs, fjölskyldu og heimilis í 8. gr. samningsins og friðhelgi eignarréttarins í 1. gr. samningsviðauka nr. 1, svo og að meðferð máls af þessu tilefni fyrir íslenskum dómstólum hafi ekki verið í samræmi við ákvæði 6. gr. samningsins, en sömu menn settu tvívegis fram kæru af sama tilefni.

Í einu tilviki að afturköllun leyfis til að aka leigubifreið væri brot á friðhelgi eignarréttarins skv. 1. gr. samningsviðauka nr. 1, svo og að meðferð máls af þessu tilefni fyrir dómi hafi í tilteknum atriðum brotið gegn 6. gr. samningsins.

Í einu tilviki að taka bifreiðar vegna endurtekinnar notkunar hennar í tengslum við umferðarlagabrot væri brot á friðhelgi eignarréttarins skv. l. gr. samningsviðauka nr. 1.

Í einu tilviki að meðferð skaðabótamáls fyrir dómi hafi í tilteknum atriðum brotið gegn 6. gr. samningsins.“

Virðulegi forseti. Vinsamlegast bættu mér á mælendaskrá svo ég geti haldið áfram upptalningunni hérna og yfirferð á þessu máli.