Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:57]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Herra forseti. Eins og áður er afskaplega freistandi að byrja bara strax lesturinn en eins og áður þá finn ég mig knúinn til að minnast á að ég hef verið að gera nefndaráliti 3. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar skil. Ég held áfram lestrinum þar sem frá var horfið.

„Áhrif á skilvirkni í málsmeðferð og málshraða.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. gildandi laga var sett, sem fyrr segir, til þess að auka skilvirkni og tryggja málshraða. Var breytingin gerð í kjölfar fjölmargra mála þar sem fólk hafði dvalið hér á landi svo árum skipti án þess að niðurstaða fengist um það hvort málið skyldi yfirleitt tekið til efnismeðferðar hér á landi, þ.e. hvort umsókn viðkomandi um alþjóðlega vernd skyldi skoðuð eða henni vísað frá á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar eða vegna þess að viðkomandi hefði þegar verið veitt vernd í öðru ríki. Þá höfðu þó nokkuð mörg mál vakið reiði í samfélaginu þar sem til stóð að flytja úr landi fólk, jafnvel börn, sem skotið hafði rótum hér á landi eftir margra ára dvöl vegna dráttar á málsmeðferð stjórnvalda. Fól ákvæðið í sér mikla réttarbót líkt og fram kemur í umsögn Rauða krossins á Íslandi við frumvarp það sem varð að lögum nr. 80/2016, þar sem loku var skotið fyrir það að stjórnvöld tækju mörg ár í að komast að niðurstöðu um það hvort umsókn skyldi yfirleitt skoðuð hér á landi eða ekki.

Því hefur verið haldið fram af hálfu dómsmálaráðuneytis að með núgildandi ákvæðum sé fyrirkomulagið þannig að ef 12 mánuðir líða án þess að umsækjandi sé fluttur úr landi í kjölfar þess að umsókn hans er vísað frá eigi umsækjandi rétt á endurupptöku sem leiði til þess að málið fari „annan hring“ í kerfinu. Í því að skerða rétt einstaklings til efnismeðferðar með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu sé kerfið þannig einfaldað og skilvirkni aukin. Þetta er rangt. Mál sem tekið er til efnismeðferðar vegna dráttar á málsmeðferð fer ekki „annan hring“ með því, heldur þýðir það einfaldlega að viðkomandi umsækjandi fær áheyrn hér á landi í stað þess að umsókninni sé vísað frá. Það er í öllum tilvikum viðkomandi umsækjanda í hag og eykur ekki flækjustig, líkt og látið hefur verið í veðri vaka. Hér er því um verulega réttindaskerðingu að ræða fyrir fólk á flótta.

Í þessu samhengi er vert að benda á heimild í 47. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, sem heimilar stjórnvöldum að viðurkenna vernd sem annað ríki hefur veitt umsækjanda (t.d. í Grikklandi) án nýrrar málsmeðferðar. Til þess að bæta skilvirkni væri stjórnvöldum þannig í lófa lagið að veita viðkomandi einfaldlega vernd eftir að ákveðið hefur verið að málið skuli tekið til efnismeðferðar, án frekari málsmeðferðar, þegar um er að ræða einstakling sem fengið hefur rétt sinn til alþjóðlegrar verndar viðurkenndan í öðru ríki. Engin þörf er á lagabreytingum til þess að bæta skilvirkni verulega með þessum hætti.“

Tíminn líður hratt og nú er aftur svo komið að hann er á þrotum í þessari ræðu. Ég á hér eftir þó nokkuð margar blaðsíður og það er ekki nokkur leið að ná yfir þær allar á þeim tíma sem eftir er. Því óska ég þess að fara aftur á mælendaskrá.