Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég hef farið hérna yfir atriði þar sem Ísland hefur verið talið brotlegt gegn mannréttindasáttmála Evrópu, að vísu frá þeim tíma þar sem frumvarp til laga um mannréttindasáttmála Evrópu lá fyrir Alþingi 1993 þegar það var samþykkt. Ég er kominn að síðasta tilvikinu þar sem er fjallað um þau brot sem hafa orðið á Íslandi, með leyfi forseta:

„Í einu tilviki taldi kærandi ákvæði íslenskra laga, sem gera aðild hans að bifreiðastjórafélagi að skilyrði fyrir að njóta leyfis til að aka leigubifreið, andstæð reglum um félagafrelsi í 11. gr. samningsins. Nefndin komst einróma að þeirri niðurstöðu að kæran væri tæk til frekari meðferðar. Nokkru síðar taldi nefndin gegn einu mótatkvæði að brotið hefði verið gegn fyrrnefndu ákvæði samningsins. Í framhaldi af þessu lagði nefndin mál á hendur íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Málið var flutt munnlega fyrir dómstólnum 22. febrúar 1993, en dóms er ekki vænst í því fyrr en á miðju árinu.“ — Sem sagt þegar þarna er komið sögu. Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Ekki hefur reynst unnt að afla með aðgengilegum hætti upplýsinga til samanburðar um fjölda kæra til mannréttindanefndarinnar á hendur hverju aðildarríki að mannréttindasáttmálanum um sig og þá enn síður hversu oft nefndin hefur talið hlutfallslega að kærur gegn hverju ríki um sig hafi verið tækar til frekari meðferðar. Miðað hins vegar við heildarfjölda kæra til nefndarinnar hefur hún talið liðlega 6% þeirra tækar til frekari meðferðar. Af þeim 32 kærum á hendur íslenska ríkinu, sem nefndin hefur afgreitt, hafa fjórar talist tækar til frekari meðferðar eða rúmlega 12,5% þeirra.

3. Áhrif mannréttindasáttmálans á lagasetningu.

Fullgilding íslenska ríkisins á mannréttindasáttmála Evrópu hefur sem áður segir leitt af sér skuldbindingu þess að þjóðarétti um að íslensk löggjöf muni tryggja öllum, sem dveljast á yfirráðasvæði þess, þau réttindi sem sáttmálinn kveður á um.“

Það er gott að leggja áherslu á þetta: Að tryggja öllum sem dveljast á yfirráðasvæði þess ríkis, ekki bara þeim sem eru með ríkisborgararétt heldur öllum sem dveljast á yfirráðasvæði þess. Þetta er mjög mikilvægt ákvæði. Þetta er t.d. ekki svona í Bandaríkjunum. Þar tryggir stjórnarskráin ekki öðrum heldur en ríkisborgurum Bandaríkjanna réttindi gagnvart stjórnarskránni. Það skiptir rosalega miklu máli t.d. hvað varðar rétt okkar nú í dag til að leita réttar okkar, sem dæmi ef bandaríska ríkið eða einhver bandarískur aðili ákveður að njósna um okkur með því að brjótast inn á heimili okkar og skoða það. Þá gæti jafnvel ákveðinn dómstóll innan Bandaríkjanna kveðið á um hvort það hafi átt sér stað brot eða eitthvað svoleiðis en hann er mjög afmarkaður og lokaður og þarf ekkert að láta vita, sérstaklega ekki ef það er ekki ríkisborgari Bandaríkjanna.

Þetta er mjög mikilvægur munur á því yfir hverja réttindi ná, hvort þau nái til allra sem dveljast á yfirráðasvæði hvers ríkis. Það skiptir öllu máli með tilliti til þess máls sem við erum að glíma við hérna. Þótt umsækjendur um alþjóðlega vernd séu ekki ríkisborgarar Íslands nær stjórnarskráin og ákvæði mannréttindasáttmálans yfir þessa aðila. Fordæmin fyrir því að svo sé ekki eru nefnilega svo slæm, að það sé hægt að koma fram við ríkisborgara annarra landa sem einhvers konar annars flokks borgara. Fordæmin fyrir því hvernig hefur verið farið með fólk eru bara ekki til eftirbreytni. Þess vegna er þetta mikilvægur munur og á t.d. stjórnarskrárlögunum í Bandaríkjunum. Ég bið forseta vinsamlegast að setja mig aftur á mælendaskrá.