Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:18]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég var hér að reifa umsögn Rauða krossins í fyrri ræðu minni og ætla að halda áfram þar sem ég lét staðar numið. Hér var ég, með leyfi forseta:

„Þá telur Rauði krossinn að við gerð frumvarpsins hefði átt að horfa til sjónarmiða Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Rauði krossinn minnir á að skv. 2. mgr. 23. gr. útl. skulu íslensk stjórnvöld við framkvæmd ákvæða málsmeðferðareglna í málum um alþjóðlega vernd eiga í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, m.a. um framkvæmd og túlkun laga um útlendinga nr. 80/2016.

Í athugasemdum við ákvæðið segir m.a. að ekki sé gerð krafa um að móttökuríkið sé aðili að Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Rauði krossinn furðar sig á því og telur það ótækt enda er Flóttamannasamningurinn grundvöllur þeirra viðmiða sem Ísland og samanburðarríki Íslands setja um vernd flóttamanna. Rauði krossinn telur raunar vera mótsögn í því að í athugasemdunum segir að ekki sé gerð krafa um að móttökuríkið sé aðili að Flóttamannasamningnum en í ákvæðinu segir engu að síður að umsækjandinn verði að geta fengið vernd í móttökuríkinu í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpinu er vísað til meginreglunnar um að vísa fólki ekki brott þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu (non-refoulement) og að gerð sé sú krafa til stjórnvalda að þau gangi úr skugga um að meginreglunni sé fullnægt. Rauði krossinn bendir á að samkvæmt sjónarmiðum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sjá nánar hér að neðan, felur það ekki í sér fullnægjandi mat enda eiga flóttamenn að njóta ríkari réttinda samkvæmt Flóttamannasamningnum en þeirra sem felast í meginreglunni.

Talsmenn Rauða krossins hafa einnig bent á þá þversögn að Útlendingastofnun synji umsækjendum um efnismeðferð í tilvikum þar sem umsækjandinn hefur dvalið í móttökuríki sem er ekki á lista sem stofnunin gefur sjálf út yfir örugg upprunaríki skv. 2. mgr. 29. gr. útl. Einnig virðist Rauða krossinum sem í tillögu frumvarpsins séu gerðar jafnvel minni kröfur til aðstæðna í fyrsta griðlandi sem móttökuríki en gerðar eru þegar metið er hvort umsækjandi geti leitað verndar með því að flytja sig um set innan eigin heimaríkis, sbr. 4. mgr. 37. gr. útl. Í athugasemdum við það ákvæði í frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga segir m.a. að við mat á því hvort hægt sé með sanngirni að ætlast til þess að útlendingur setjist að á því svæði í eigin heimaríki sem talið er öruggt samkvæmt ákvæðinu skuli tekið tillit til ýmissa þátta sem ekki séu tæmandi taldir, svo sem aldurs, kyns, heilsu, fjölskylduaðstæðna, trúar, menningar sem og möguleika viðkomandi útlendings á vinnu eða menntun og að við matið skuli m.a. höfð hliðsjón af leiðbeiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Í framkvæmd hefur einnig verið lögð rík áhersla á að umsækjandi eigi félagslegt bakland á því svæði hvar honum er ætlað að setjast að. Engin slík sjónarmið eru rakin í frumvarpinu.“

Tilvitnun lýkur í bili, því að þetta er alls ekki búið. Þessi umsögn kemur mjög ítarlega inn á 8. gr. En þetta er eitthvað sem ég benti á líka í síðustu viku, að ef það hefði verið raunverulegur vilji dómsmálaráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar að auka skilvirkni í þessum málaflokki og að afgreiða þessar umsóknir á vandaðan hátt þá hefði þetta frumvarp verið gert í samstarfi við t.d. leiðbeiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og þetta frumvarp hefði verið gert í samstarfi við til að mynda Rauða krossinn og aðrar stofnanir og samtök sem hafa að geyma sérfræðinga í þessum málaflokki. Því meira sem ég les umsagnir hér uppi í pontu, því meira sem ég geri grein fyrir afstöðu fólks og líka minni afstöðu hvað varðar einstök ákvæði þessa frumvarps, þá er það frekar ljóst að þetta frumvarp var bara gert í einhverjum flýti og frekju við að ná tímamarkinu og koma þessum lögum í gegnum þingið áður en þessu löggjafarþingi lýkur. Þetta er alla vega mín skoðun á þessu og viðhorfið sem ég fæ og líka bara tregðan hjá stjórnarliðum við að ræða þetta frumvarp efnislega hér í þingsal sýnir að fólkið sem stendur fyrir þessu frumvarpi er greinilega ekki búið að kynna sér það nægilega vel. — Ég óska þess að vera sett aftur á mælendaskrá.