Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:34]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Frú forseti. Ég ætla bara að halda áfram þar sem ég lét staðar numið áðan en þar var ég að vísa í umsögn Rauða krossins varðandi 8. gr. frumvarpsins sem við erum að ræða hér, mál nr. 382, minnir mig, með leyfi forseta:

„Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpinu segir að við mat á því hvað teljist sanngjarnt og eðlilegt samkvæmt hinum nýja d-lið skuli m.a. líta til lengdar dvalar, fjölskyldutengsla og möguleika viðkomandi til að dveljast eða öðlast rétt til dvalar í ríkinu. Getur ákvæðið þannig einnig komið til skoðunar þegar umsækjandi hefur ekki dvalið í ríkinu en hefur náin fjölskyldutengsl við það, s.s. þegar maki umsækjandans er ríkisborgari þess og getur á þeim grundvelli fengið dvalarleyfi. Rauði krossinn telur að við gerð frumvarpsins hafi verið lögð óeðlileg áhersla á tengsl umsækjenda við mögulegt móttökuríki fremur en vernd flóttamanna. Rauði krossinn telur ótækt að atriði á borð við tengsl við ríki sem umsækjandinn hefur aldrei komið til geti orðið grundvöllur að synjun á að taka umsókn til efnismeðferðar.“

Frú forseti. Ég ætla að fá að vera sammála Rauða krossinum hvað varðar þetta tiltekna atriði. Það er alveg rétt að vernd flóttamanna eru ekki höfð í fyrirrúmi við setningu þessa lagaákvæðis. Ég og aðrir Íslendingar eigum t.d. einhverja fjölskyldu, segjum í Svíþjóð, segjum í Bretlandi, en það þýðir ekki að ég sé með einhver tengsl við það ríki. Það þýðir ekki að ég sé örugg þar. Það þýðir ekki að Útlendingastofnun eigi að taka einhverja semímatskennda ákvörðun um að vísa mér þangað, senda mig þangað á grundvelli þess að ég sé mögulega kannski með einhver tengsl í þessu ríki því að einhver sem er tengdur mér eða einhver ættingi minn er með ríkisborgararétt þar m.a. Þetta er eins og ef ég væri umsækjenda um alþjóðlega vernd og myndi koma hingað, því að vissulega er auðveldara að koma hingað en t.d. til Bretlands þar sem Bretar eru bara með þá ríkisstjórn sem þeir eru með og við þurfum ekkert að fara nánar út í það, en segjum sem svo að ég myndi koma hingað og íslensk stjórnvöld myndu bara ákveða að vísa mér til Kýpur af því að ég á einhverja ættingja þar. Er ég eitthvað öruggari fyrir vikið? Nei, ekkert endilega. Vil ég fá vernd í því ríki? Ég veit það ekki. Það skiptir þannig séð ekki máli. Það sem skiptir máli er að vernd flóttamanna sé höfð í fyrirrúmi við setningu svona ákvæðis sem kveður beinlínis á um réttindi einhvers tiltekins borgara. Því þykir mér það frekar leiðinlegt og ekki góðs viti að það sé verið að afvegaleiða umræðuna einhvern veginn og rýmka fyrir möguleikanum á að túlka „sanngjarnt og eðlilegt sé“. Þetta orðalag, sanngjarnt og eðlilegt, hefur tíðkast mjög lengi í lögfræðiheiminum og ég tel að það sé frekar fordæmisgefandi ef við förum að gefa því einhverja nýja merkingu í skilningi þessara laga, og það í lögum um útlendinga af öllum lögum. Ég myndi skilja ef þetta væri einhver „legendary“ lagabálkur eins og stjórnsýslulögin, sem ég er búin að vísa hér í trekk í trekk uppi í pontu, eða stjórnarskipunarlögin eða lög um meðferð einkamála eða lög um meðferð sakamála. Þetta eru frábær lög sem hafa verið notuð í áratugi og hafa líka tekið mið af þróun samfélagsins. Því átta ég mig ekki endilega á því hvers vegna það er verið að umbylta þessum lagabálki, verið að lögfesta einhver rosalega íþyngjandi ákvæði sem veita stjórnvöldum bara frekar rúma heimild til að túlka það á þann hátt sem þau vilja túlka það í stað þess að gera einstakar breytingar, t.d. á reglugerðum eða framkvæmdinni sjálfri. Þetta er eins og ef ég myndi vilja koma með fullt af nýjum ákvæðum inn í almenn hegningarlög út af því að (Forseti hringir.) samfélagið hefur breyst síðan lögin voru sett. — Ég óska þess að vera sett aftur á mælendaskrá.