153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég held áfram yfirferð á innleiðingu frumvarps um mannréttindasáttmála Evrópu, þ.e. að fara yfir stöðuna áður en það frumvarp varð að lögum og hvernig áhrif þess hafa verið. Ég er kominn að VI. kafla, með leyfi forseta:

„VI. Áhrif lögfestingar mannréttindasáttmálans á lagaframkvæmd.

Hér að framan hefur að nokkru verið vikið að því í öðru samhengi hver áhrif það hefði að íslenskum rétti að þetta frumvarp yrði að lögum. Til frekari upplýsinga um það má árétta að ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu verða að almennum lögum hér á landi ef frumvarpið nær fram að ganga. Lögfesting frumvarpsins hefði þannig í för með sér að líta megi svo á að fyrirmæli eldri laga, sem kunna að reynast ósamþýðanleg ákvæðum sáttmálans, teldust að meginreglu falla niður við gildistöku laganna. Með því hins vegar að hér yrði um almenn lög að ræða yrðu ákvæði þeirra yfirleitt að víkja fyrir yngri lögum. Af þessu er að sjálfsögðu ljóst að eitt helsta markmið frumvarpsins, að tryggja samræmi milli íslensks landsréttar og ákvæða mannréttindasáttmálans, næst ekki út af fyrir sig formlega til frambúðar með því einu að það verði að lögum fyrst unnt væri að virða þetta markmið að vettugi með setningu yngri laga. Til þess að fyrirbyggja slíka þróun mála þyrfti að veita þessum reglum stöðu stjórnskipunarlaga, sem er ekki lagt til með þessu frumvarpi þótt það geti vel verið æskileg þróun mála þegar til lengri tíma er litið. Þrátt fyrir þetta er ekki hægt að gefa sér að yngri lög gætu vikið til hliðar ákvæðum mannréttindasáttmálans ef þetta frumvarp yrði að lögum. Í því sambandi verður að minnast þess að samþykkt þessa frumvarps mundi óhjákvæmilega orka þannig á skýringu núgildandi reglna stjórnarskrárinnar að yngri lög, sem kynnu að stangast á við ákvæði mannréttindasáttmálans, kynnu um leið að teljast stríða gegn stjórnarskránni eins og hún yrði skýrð í framtíðinni. Þá verður einnig að taka tillit til þess, að skuldbinding íslenskra ríkisins að þjóðarétti samkvæmt sáttmálanum stæði óhögguð þó að yngri lög kynnu í tilteknu atriði að ganga fyrir ákvæðum laga um gildi mannréttindasáttmálans að íslenskum landsrétti. Gætu því dómstólar með sama hætti og hingað til beitt ákvæðum sáttmálans í úrlausnum sínum til skýringar á yngri lögum.

Um áhrifin af því að þetta frumvarp yrði að lögum er að öðru leyti ástæða til að víkja hér að þrennu.

Í fyrsta lagi má enn á ný minnast þess að um mörg atriði, sem ákvæði sáttmálans taka til, eru þegar fyrirmæli í íslenskum lögum og auk þess að vera samrýmanleg ákvæðum sáttmálans eru þau fyrirmæli í ýmsum tilvikum ítarlegri. Sem dæmi um þetta má benda á ákvæði 2. mgr. 5. gr. samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis, þar sem er fjallað um heimildir til að skerða frelsi manns, og 6. gr. hans sem ná meðal annars til meðferðar refsimáls fyrir dómi, en um bæði þessi atriði er fjallað miklu ítarlegar á öðrum vettvangi, einkum í lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Ákvæðum mannréttindasáttmálans yrði vitanlega ekki ætlað að leysa þau lög af hólmi. Á hinn bóginn yrði lögfesting sáttmálans til að draga fram áherslu á mikilvægustu atriðin varðandi mannréttindi sem verður að gæta að við beitingu þeirra laga í framkvæmd. Ef þetta frumvarp yrði að lögum gætu þau þannig að þessu leyti haft verulegt gildi í réttarframkvæmd við beitingu annarra og ítarlegri laga, bæði um skýringu þeirra og til aðhalds.“

Annað lagið er kannski aðeins of langt til þess að renna yfir það sem eftir er tímans. Við skulum staldra aðeins við og átta okkur á því hvernig er verið að fjalla um mikilvægi þess að innleiða ákvæði mannréttindasáttmálans í íslensk lög miðað við dómafordæmi sem voru komin þar sem íslenska ríkið var dæmt brotlegt við ákvæði mannréttindasáttmálans og íslensk stjórnvöld töldu greinilega mikilvægt að stefna í þessa átt, í átt mannréttinda fyrir alla. — Ég bið forseta vinsamlegast um að setja mig aftur á mælendaskrá.