Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:27]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Ég hyggst þá víkja aftur að umfjöllun minni um útdrætti úr umsögnum um frumvarpið og held áfram útdrætti úr umsögn Læknafélagsins. Læknafélagið áréttar að synjun um aðgengi að heilbrigðisþjónustu að 30 dögum liðnum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar stangist á við grundvallarmannréttindi líkt og kemur fram í fjölmörgum mannréttindasamningum sem Ísland hefur staðfest. Þetta er í fleirtölu, þetta eru fjölmargir samningar og þá er að finna í mörgum öðrum umsögnum.

En þá vík ég að útdrætti úr umsögn Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar sem víkur að því að ákvörðun um synjun sæti sjálfkrafa kæru samkvæmt 2. gr. og telur, eins og svo margir aðrir umsagnaraðilar, að breytingin muni stytta þann tíma sem umsækjendur hafa til að kynna sér forsendur niðurstöðunnar og afla nýrra gagna og undirbúa greinargerð. Vegna þess tíma sem það getur tekið að afla gagna erlendis frá og fá leiðbeiningar lögfræðinga til að útbúa kæruna þá leggst Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar gegn breytingunni, líkt og margir aðrir umsagnaraðilar hafa einnig gert.

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofan víkur einnig að þjónustuskerðingu eftir 30 daga og er mótfallin því að öll þjónusta falli niður að þeim tíma liðnum. Hún bendir á að þjónusta falli niður um leið ef umsækjandi er frá EES-ríki eða öruggu upprunaríki að mati Útlendingastofnunar og leggur áherslu á að það þurfi að skoða aðstæður hvers og eins með tilliti til aðstæðna í upprunaríki og að sjálfsögðu aðstæðna einstaklingsins. Ekki sé hægt að alhæfa með þessum hætti að umsókn sé bersýnilega tilhæfulaus.

Hér er líka komið inn á 11. gr. stjórnsýslulaga og að samkvæmt henni sé óheimilt að mismuna aðilum við úrlausn máls á grundvelli þjóðernis. Það er akkúrat það sem margir aðrir umsagnaraðilar hafa bent á, að í frumvarpinu eigi að undanskilja útlendingamál frá rétti stjórnsýslulaga um að fá aukinn frest og að það geti reynst brot á rannsóknarskyldu fái umsækjendur ekki nægjanlegan tíma til að afla allra gagna. Hér er einnig vikið að takmörkunum á endurupptöku sem er andstæð 24. gr. stjórnsýslulaga og telur Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkur þetta fela í sér óeðlilega réttarskerðingu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, enda sé það tilgangur stjórnsýslulaga að tryggja öllum lágmarksrétt. Þetta er afar mikilvægt að hafa í huga, að við erum að víkja frá þessum viðmiðum.

Ég næ ekki að klára að fara yfir þennan útdrátt úr umsögn Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, og á raunar eftir nokkrar aðrar umsagnir, og óska því eftir að fá að komast aftur á mælendaskrá.