Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég er að fara yfir umsagnir við hverja grein. Ég er að fara yfir 2. gr. núna sem væri gott að rifja upp, með leyfi forseta:

„Við 7. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á efnismeðferð á grundvelli 36. gr. sætir sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála nema umsækjandi óski þess sérstaklega að kæra ekki og skal greinargerð vegna kæru berast kærunefnd innan 14 daga frá birtingu ákvörðunarinnar.“

Það er margt í þessu en ég var að fara yfir umsögn Rauða krossins um þetta og svo er það umsögn Íslandsdeildar Amnesty International, um að ákvarðanir Útlendingastofnunar um synjun á efnislegri meðferð sæti sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála og að greinargerð vegna kæru þurfi að berast kærunefnd útlendingamála innan 14 daga frá birtingu ákvörðunarinnar. Með leyfi forseta:

„Gagnaöflun vegna kæru er háð afhendingu gagna frá Útlendingastofnun sem gefur sér að lágmarki 10 virka daga til þess að afhenda skjöl.“

Það hefur komið í ljós á fundum, alla vega með ráðuneytinu, að þetta er í rauninni tilvísun í það að ef póstur er sendur á utl@utl.is þá sé þessi lágmarksfrestur gefinn. Áður en talsmannaþjónustunni var breytt — áður var Rauði krossinn með talsmannaþjónustuna fyrir hönd ríkisins, bara svipað eins og Rauði krossinn sinnir sjúkrabílaþjónustu o.s.frv. — voru þessar samskiptaleiðir mun styttri og var ákveðin þekking í málaflokknum. Núna sér hins vegar Rauði krossinn ekki um þetta og það er í rauninni bara ákveðinn listi lögfræðinga sem býður upp á þessa þjónustu og það er spurning hvort ekki séu komnar nægilega skilvirkar leiðir til þess að nýta eitthvað annað heldur en þetta almenna tölvupóstfang sem býður upp á tíu daga, en það virðist alla vega vera í notkun núna þannig að það er alveg mögulega svigrúm til þess að bæta skilvirkni þarna með betri upplýsingagjöf og betri ferlum innan Útlendingastofnunar um skil gagna. Þetta varðar líka mál fleiri stofnana, t.d. öflun heilbrigðisupplýsinga og ýmislegt svoleiðis, þannig að þetta er pínu flóknara heldur en er sagt þarna.

„Það sama á við um gagnaöflun frá öðrum stjórnvöldum og aðilum almennt. Sú staðreynd að umsækjendur geta ekki treyst því að gögn verði afhend þeim með stuttum fyrirvara á meðan mál þeirra sæta sjálfkrafa kæru, mun leiða til þess að umsækjendur um alþjóðlega vernd verða ófærir um að undirbúa viðunandi málsvörn og að mál þeirra sé nægjanlega upplýst í skilningi rannsóknarreglu stjórnsýslulaga þegar ákvörðun er tekin. Tillögð lagabreyting felur í sér áhættu um að þessi málaflokkur verði sá eini sem lýtur málsmeðferð innan stjórnsýslunnar þar sem málsaðilum er ekki tryggður sá kostur að njóta réttar síns til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns í skilningi 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Miðað við ofangreint mun ákvæðið leiða til verulegrar skerðingar á réttarvernd umsækjenda um alþjóðlega vernd.“

13. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Réttur til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns.

Sérhver sá sem á er brotinn sá réttur eða það frelsi hans skert, sem lýst er í samningi þessum, skal eiga raunhæfa leið til að ná rétti sínum fyrir opinberu stjórnvaldi, og gildir einu þótt brotið hafi framið opinberir embættismenn.“

Þetta er frekar skýrt, virðulegi forseti. Þarna er mögulega gengið á ákveðin réttindi og hvort það sé málefnalegt eða ekki er eitthvað sem við höfum ekki fengið tilhlýðilegt svar við. Hér er t.d. ekki verið að samræma reglur miðað við önnur Norðurlönd eins og var eitt af markmiðum þessa frumvarps. Ég las einmitt upp áðan að kærufresturinn væri 21 dagur en almennt séð í stjórnsýslukærum er hann þrír mánuðir. Því er um að ræða mjög mikinn mun. — Forseti má vinsamlegast setja mig aftur á mælendaskrá til að halda áfram þessari umfjöllun.