Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:43]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Ég hef verið að gera útdráttum úr umsögnum skil, fyrir þau sem vilja kannski fá knappari texta til að meta, og langar að halda áfram þar sem frá var horfið í útdrætti úr umsögn Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkur.

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkur vísar einnig til ákvæðis 8. gr., um vernd í öðrum ríkjum, og leggst alfarið gegn þeirri breytingu að mál verði ekki tekin til efnismeðferðar hafi einstaklingur hlotið vernd í öðru ríki heldur verði að leggja mat á hvert tilvik fyrir sig. Í umsögninni er einnig vikið að tímafrestum og bent á að mikilvægt sé að umsækjendur um alþjóðlega vernd njóti enn þeirrar réttarverndar að fá umsókn sína tekna til efnismeðferðar þó að brottflutningur frestist umfram 12 mánuði frá komu þeirra til landsins.

Það er fleira. Vikið er að fjölskyldusameiningu og Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofan leggst gegn breytingunni þar sem aðskilnaður fjölskyldumeðlima geti verið einstaklingum á flótta afar erfiður og haft áhrif á líðan þeirra og möguleika á að verða virkir þátttakendur í samfélaginu. Eins og margir aðrir umsagnaraðilar telur Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkur jafnréttismat frumvarpsins ófullnægjandi og bendir á að ekki sé heldur tekið tillit til fatlaðs fólks eða hinsegin fólks.

Vík ég þá að útdrætti úr umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands. Þar er áréttaður skortur á samráði og vísað til yfirlýsingar 15 samtaka, eins og svo margra annarra. Það er mjög auðvelt að taka undir þetta ákall um samráð sem hefur að mínu mati verið afar ábótavant og kristallast ágætlega í því að samráð er ekki einu sinni í boði við Alþingi.

Mannréttindaskrifstofa Íslands víkur að sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála og ítrekar skoðun margra annarra um að hún ætti að vera valkvæð því að þetta takmarkar tíma til að glöggva sig á efni ákvörðunar Útlendingastofnunar og afla nauðsynlegra gagna, og er einfaldlega til þess fallið að valda réttindamissi. Mannréttindaskrifstofa Íslands vísar til meginreglna stjórnsýslulaga og bendir á andmælarétt, rannsóknarreglu og rétt til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu.

Það er vikið að fleiru. Líkt og margir aðrir umsagnaraðilar bendir Mannréttindaskrifstofa Íslands á 6. gr., sem fjallar um að þjónusta falli brott eftir 30 daga. Hér er um að ræða grundvallarmannréttindi. Bent er á réttinn til heilsu og mannsæmandi lífs og að þessi réttindi séu tryggð í samningi Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er aðili að og hefur fullgilt, og að íslensk stjórnvöld megi ekki fara gegn þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem þau hafa undirgengist. Það verður að teljast óásættanlegt að svipta fólk þjónustu og skilja það eftir heimilislaust, án framfærslu og viðunandi heilbrigðisþjónustu. Mannréttindaskrifstofa Íslands bendir á að þetta bjóði upp á mansal, ofbeldi og aðra hagnýtingu á aðstæðum viðkomandi. — Ég á nóg eftir, frú forseti, og óska þess að fara aftur á mælendaskrá.