Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:59]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Ég er enn þá að fjalla um útdrætti úr umsögnum og er kominn langt á veg með útdrátt úr umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands. Hún víkur að 7. gr., um endurteknar umsóknir, og telur þá takmörkun sem í greininni er útlistuð fela í sér réttarskerðingu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd þar sem ætlunin sé að ný málsmeðferð endurtekinna umsókna komi í stað endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga. Skrifstofan bendir á, eins og svo mörg önnur mannréttindasamtök og önnur samtök, að hér sé kveðið á um lágmarksrétt, stjórnsýslulög fjalla um lágmarksrétt. Það hlýtur að hringja einhverjum bjöllum að ætla að ganga skemur en þann lágmarksrétt sem stjórnsýslulög tryggja.

En það er vikið að fleiru. Það er vikið að 13. gr. sem varðar takmörkun á fjölskyldusameiningu. Mannréttindaskrifstofa Íslands, eins og aðrir, fær ekki séð hvaða markmið eða ríka samfélagslega þörf búi að baki þeirri tillögu þar sem rétturinn til fjölskyldulífs er varinn af stjórnarskránni, sem öllum þingmönnum á Alþingi ber skylda til að verja, og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Því eru settar mjög þröngar skorður að takmarka þann rétt og þarf að uppfylla þrenns konar skilyrði til að takmörkunin sé heimil; hún þarf að eiga sér stoð í lögum, markmiðið þarf að vera lögmætt og að lokum þarf hún að vera nauðsynleg. Skrifstofan telur að þessi takmörkun gangi mun lengra en nauðsynlegt þyki og að skilyrðin fyrir þessari takmörkun séu ekki uppfyllt. Að lokum er það gagnrýnt, eins og mörg önnur samtök hafa gert, að ekki hafi farið fram jafnréttismat með tilliti til kvenna, hinsegin fólks, fatlaðs fólks af mismunandi uppruna og með tilliti til litarháttar, kyngervis, kynvitundar, og bent á að jaðarsettum hópum sé einfaldlega hættara við ofbeldi.

Þá vík ég að útdrætti úr umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands. Hún er afar yfirgripsmikil og fræðandi þar sem vísað er í bæði dómafordæmi fyrir sambærilegri lagasetningu og færð ítarleg rök fyrir því að margar greinar frumvarpsins standist einfaldlega ekki stjórnarskrá. Mér þykir afar miður að þessum athugasemdum skuli ekki hafa verið sinnt, að því hafi ekki verið sinnt að gaumgæfa hvað sé til í þessari umsögn. Í henni er bent á mörg atriði og þótt aðeins eitt þeirra væri gilt þá væri það tilefni til þess að staldra við og gæta þess að það sé hafið yfir allan vafa að búið sé að tryggja mannréttindin og ákvæði stjórnarskrárinnar sem eru þar í hættu. — Ég ætla að víkja að því í næstu ræðu og óska eftir að fá að fara aftur á mælendaskrá.