Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:04]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Ég ætla að halda áfram að fara yfir mjög góða umsögn og ítarlega frá Rauða krossinum á Íslandi. Ég var komin að 8. gr. frumvarpsins sem hér um ræðir og ætla að lesa upp úr umsögninni, með leyfi forseta:

„1 B-liður: Ákvæði um fyrsta griðland.

Með 8. gr. frumvarpsins eru gerðar umtalsverðar breytingar á efni og innihaldi 36. gr. útl. Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að við 1. mgr. bætist nýr stafliður, d-liður, sem felur í sér sjálfstæðan grundvöll til að synja um efnislega meðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Umsækjandi hafi slík tengsl við annað ríki að eðlilegt og sanngjarnt sé að hann dvelji þar, ferðist eða sé fluttur þangað enda þurfi hann ekki að sæta ofsóknum þar, geti óskað eftir að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.“

Af frumvarpinu og eldri frumvörpum má vera ljóst að d-lið 36. gr. útl. er ætlað að vera útfærsla á hugtakinu um fyrsta griðland. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarpsins segir að núverandi ákvæði a-liðar 1. mgr. 36. gr. útl. um fyrsta griðland hafi ekki verið beitt að fullu þar sem það er talið óskýrt. Rauði krossinn telur að í mörgum tilvikum verði ekki unnt að framkvæma ákvarðanir sem teknar verða á grundvelli d-liðarins enda gert ráð fyrir að hægt verði að synja umsækjanda um efnismeðferð ef hann hefur náin fjölskyldutengsl við ríki sem hann hefur þó aldrei komið til, s.s. þegar maki hans er ríkisborgari þess ríkis og umsækjandi getur á þeim grundvelli fengið dvalarleyfi.

Ekki er fjallað um það í frumvarpinu hvernig íslensk stjórnvöld sjá fyrir sér framkvæmd endursendinga til ríkja á þessum grundvelli fyrir utan tilvísun í ákvæði 38. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/32/ESB, enda engir viðtökusamningar í gildi nema við aðildarríki Dyflinnarreglugerðarinnar.

Þar til á síðasta ári hefur beiting undanþága frá meginreglu 1. mgr. 36. gr. útl. um að taka skuli umsóknir um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar takmarkast við mál þar sem móttökuríkið er eitt af Schengen-ríkjunum eða aðildarríkjum að Dyflinnarsamstarfinu.“

Ég ætla að staldra við hér þar sem tími minn er á þrotum og bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.