Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:27]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Ég er enn þá að fjalla um útdrætti úr umsögnum fyrir þau sem kjósa frekar að heyra knappari texta og er enn þá að vísa til umsagnar Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands.

Mannréttindastofnunin hnýtir einnig í það að frumvarpið sé í samræmi við löggjöf og framkvæmd annars staðar á Norðurlöndum og að fyrirmynd annarra Evrópuríkja o.s.frv. án þess að það sé rökstutt með tilvísunum í löggjöf viðkomandi ríkja eða nokkuð annað. Það er ekki tekin afstaða til þess hvers vegna frumvarpshöfundar telji aðra leiðina ákjósanlegri en hina, það er ekki útskýrt, og eru tilvísanir óljósar og ekki gagnlegar við mat á efni frumvarpsins.

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands víkur einnig að sjálfkrafa kæru eins og svo ótal mörg önnur samtök hafa gert. Ótal mörg önnur samtök hafa bent á það að forsenda þess að geta skilað greinargerð vegna kæru til kærunefndar útlendingamála sé að viðkomandi hafi öll gögn málsins, en í því samhengi áskilji Útlendingastofnun sér a.m.k. tíu daga frest til að afhenda öll gögn. Bent er á að tímafrekt geti einnig reynst að afla gagna annars staðar frá og með ákvæðinu sé verið að gefa umsækjenda svo skamman frest að illmögulegt getur verið fyrir hann að gera fullnægjandi greinargerð og í sumum tilfellum ómögulegt vegna skorts á gögnum. Svo skammur frestur getur að mati Mannréttindastofnun Háskóla Íslands brotið gegn réttinum til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns, sem er tryggður í 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þessu fylgir umtalsverð réttindaskerðing. Á þetta benda ótal önnur samtök og mér er ómögulegt annað en að taka undir þessa gagnrýni. Þetta er fráleitt. Það er fráleitt að hafa frestinn svo knappan vegna þeirra miklu hagsmuna og réttarskerðingar sem því fylgir.

Það er fleira sem Mannréttindastofnun Háskóla Íslands víkur að í umsögn sinni. Eitt er brottfall þjónustu, sem varðar 6. gr., og gerð er alvarleg athugasemd við frumvarpið að því leyti að ekki virðist tekin afstaða til þess hvernig það ákvæði samrýmist mannréttindaskyldum ríkisins á grundvelli stjórnarskrárinnar og alþjóðasamninga. Það er ekki ljóst af lestri frumvarpsins hvort hin breytta regla gæti leitt til þess að einstaklingar falli utan þjónustu og framfærsluaðstoðar, t.d. þegar horft er til sveitarfélaga. Ef frumvarpið leiddi til slíkrar niðurstöðu er jafnframt óútskýrt hvernig sú niðurstaða gæti samrýmst ákvæðum stjórnarskrárinnar með vísan til 65., 68. og 76. gr. hennar. — Frú forseti. Hér á ég töluvert eftir og óska eftir að komast aftur á mælendaskrá.