Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:32]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið. Ég er að fara yfir umsögn Rauða krossins á Íslandi um þetta frumvarp til laga, fer yfir hverja grein fyrir sig og er nú komin að 8. gr. Ég ætla að byrja hér þar sem frá var horfið, með leyfi forseta:

„Mál sem heyra undir Dyflinnarreglugerðina sem Schengen-ríkin eru skuldbundin af hafa fallið undir c-lið og mál þar sem einstaklingum hefur verið veitt alþjóðleg vernd í einu af Schengen-ríkjunum samkvæmt undanþáguákvæði 1. málsl. a-liðar 1. mgr. 36. gr. útl. Í kjölfar nokkurs fjölda umsókna einstaklinga með ríkisfang í Venesúela sem einnig hafa mismikil tengsl við önnur ríki, einkum önnur ríki Suður-Ameríku, hóf Útlendingastofnun að synja umsækjendum í slíkum málum um efnismeðferð með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. útl. Í greinargerðum talsmanna Rauða krossins til Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála hefur þessari framkvæmd verið harðlega mótmælt. Að teknu tilliti til þess hve óskýrt og umdeilanlegt núverandi ákvæði a-liðar 1. mgr. 36. gr. útl. er, og þess að hingað til hefur ekki tíðkast að beita undanþáguákvæðum ef ekki er um Schengen ríki að ræða, hefur Rauða krossinum brugðið hve viljug stjórnvöld hafa verið til að beita ákvæðinu í fyrrnefndum tilvikum. Rauði krossinn telur ljóst af lögskýringargögnum að undanþáguákvæðin voru lögtekin með Schengen-samstarfið sérstaklega í huga. Í athugasemdum við 36. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga, nr. 80/2016, kemur fram að greinin byggist á 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga.

[…]

Þá telur Rauði krossinn að við gerð frumvarpsins hefði átt að horfa til sjónarmiða Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Rauði krossinn minnir á að skv. 2. mgr. 23. gr. útl. skulu íslensk stjórnvöld við framkvæmd ákvæða málsmeðferðarreglna í málum um alþjóðlega vernd eiga í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, m.a. um framkvæmd og túlkun laga um útlendinga nr. 80/2016.

Í athugasemdum við ákvæðið segir m.a. að ekki sé gerð krafa um að móttökuríkið sé aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Rauði krossinn furðar sig á því og telur það ótækt enda er flóttamannasamningurinn grundvöllur þeirra viðmiða sem Ísland og samanburðarríki Íslands setja um vernd flóttamanna. Rauði krossinn telur raunar vera mótsögn í því að í athugasemdunum segir að ekki sé gerð krafa um að móttökuríkið sé aðili að flóttamannasamningnum en í ákvæðinu segir engu að síður að umsækjandinn verði að geta fengið vernd í móttökuríkinu í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.“ — Ég bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.